Yngra árs liðið átti erfiðan leik fyrir höndum, gegn núverandi Íslandsmeisturum í ÍBV. Liðin hafa spilað tvisvar í vetur, fyrst gerðu liðin jafntefli í æsispennandi leik og nú fyrir nokkrum vikum vann KA/Þór með minnsta mun. Það var því ekki spurning um að leikurinn yrði æsispennandi.
KA/Þór byrjaði betur en ÍBV vann sig síðan inn í leikinn. Liðin skiptust á að hafa forystu en vörn KA/Þór var hreint út sagt frábær í leiknum sem og sóknarleikur liðsins. Það sem varð þó liðinu að falli var nýting á dauðafærum. Fjöldamörg dauðafæri fóru forgörðum og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum hafði ÍBV þriggja marka forskot og allt útlit fyrir sigur ÍBV. Þá spyrntu norðanstúlkur við fótum og með mikilli baráttu jöfnuðu þær og fengu gott tækifæri til að stela sigrinum á lokasekúndum en svo varð ekki og framlenging niðurstaðan.
Í framlengingunni leit út fyrir að KA/Þór ætlaði sér að klára leikinn en markvörður ÍBV fór vægast sagt á kostum á þessum kafla. Stelpurnar klikkuðu á tveimur vítum, tveimur dauðafærum af línu og einu hraðaupphlaupi. Það eru klikk sem telja of mikið og ÍBV vann því miður þennan úrslitaleik með einu marki 23-22.
Stelpurnar spiluðu frábærlega í þessum leik og sárgrætilegt að þær fengu ekkert út úr leiknum. Þær enduðu mun fleiri sóknir en ÍBV með skoti á markið og vörnin vann hvern boltann á fætur öðrum. Það er því stórundarlegt að sitja eftir með tap í farteskinu. Þannig er víst boltinn og ekkert sem hægt er að segja við því. Stelpurnar sýndu frábæran karakter að koma sér inn í framlenginguna þegar leikurinn var nánast tapaður og framlag þeirra í framlengingunni hefði á eðlilegum degi dugað til að vinna leikinn. Það þurfti því engan að undra að markvörður ÍBV var valinn maður leiksins enda vann hún leikinn fyrir ÍBV.
Aldís Heimisdóttir fór fyrir sínu liði í dag og spilaði hreint út sagt frábærlega og maður spyr sig hvernig stendur á því að horft sé fram hjá henni í landsliðinu.
En stelpurnar eru enn á toppnum í deildinni þegar aðeins fjórir leikir eru eftir. Þær eru í góðum séns að vinna deildarmeistaratitilinn og eftir það verður stefnan sett á þann stóra.
Eldra árið
Eldra árið átti síðan leik seinna um daginn við Fram. Fyrri hálfleikurinn í þeim leik var því miður langt fyrir neðan allt sem þær hafa sýnt í getu fram að þessu. Baráttan, stemmingin og leikgleðin var ekki til staðar. Sama hvert er horft þá voru þær ekki nálægt því að vera á pari. Hálfleikstölur segja allt sem segja þarf um þennan hálfleik. 12-4 fyrir Fram.
Seinni hálfleikurinn var þó miklu betri og stelpurnar sýndu á köflum hvers þær eru megnugar en það dugði ekki til og lokatölur því 21-13. Vissulega munaði um að Aldís Heimisdóttir spilar stórt hlutverk og hún var eðlilega þreytt auk þess sem Una Kara spilar venjulega nokkuð stórt hlutverk í fjarveru Ásdísar en það útskýrir ekki þessa spilamennsku sem þær sýndu í fyrri hálfleik.
En það má ekki gleyma því að þetta eru ungar stelpur sem hafa spilað frábærlega í vetur og staðið sig stórkostlega. Bara það eitt að bæði liðin komust í bikarúrslit er út af fyrir sig stórkostlegur árangur út af fyrir sig. Góður maður sagði eitt sinn, þú þarft að tapa til að vinna og það er lexían sem við tökum út úr þessu ævintýri. Eldra árið er enn í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn og ætla að gera tilkall til Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn í dag breytir engu um það.
Það er auvðitað leiðinlegt að svona slakur leikur komi upp í bikarúrslitum en þær vita alveg hvað þær geta og allir geta átt vondan dag. Stelpurnar fengu þó hrós fyrir það að þrátt fyrir að vera í tapaðri stöðu síðustu mínúturnar þá hættu þær aldrei og héldu áfram að leggja sig fram. Það eitt og sér gefur góð fyrirheit um þann karakter sem þær hafa að geyma.