Birta Fönn Sveinsdóttir íþróttamaður KA 2013

Á afmælishátíð KA sem haldin var í dag var tilkynnt að handknattleikskonan Birta Fönn Sveinsdóttir væri íþróttamaður félagsins árið 2013.

Nánari umfjöllun um afmælishátíðina er væntanleg hér á heimasíðuna en við rifjum hér upp kynningartexta handknattleiksdeildar KA um Birtu Fönn.

Birta Fönn Sveinsdóttir er fædd árið 1996 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið einn af burðarásunum í úrvalsdeildarliði KA/Þórs í handbolta það sem af er vetri. KA/Þór tók þátt í utandeild kvenna síðasta vetur, og vann hana.  Þar var Birta í aðalhlutverki, þrátt fyrir að vera aðeins nýorðin 17 ára gömul. 

Í vor var hún valin í U-18 ára liði Íslands og keppti með því í undankeppni EM.   Birta leikur veigamikið hlutverk í þessu landsliði og skoraði hún 11 mörk í þremur leikjum fyrir liðið, ásamt því að spila fyrir framan vörn íslenska liðsins. Liðinu gekk ekki sem skyldi og vann aðeins einn af þessum þremur leikjum sínum og komst því ekki í lokakeppnina. 

Í sumar varð síðan ljóst að KA/Þór myndi taka þátt í úrvalsdeildinni á nýjan leik eftir eins árs fjarveru. Liðið hefur farið ágætlega af stað í vetur og hefur krækt í fleiri stig en nokkur þorði að vona í haust. Liðinu var spáð lang neðsta sæti deildarinnar en er sem stendur 9.-11. sæti með 5 stig.

Birta hefur leikið stærstan partinn úr öllum 10 leikjum vetrarins með liðinu sem vinstri skytta.  Hún hefur skorað yfir 30 mörk í þeim, ásamt því að leika stórt hlutverk í vörninni. Í fyrsta leik liðsins í vetur, sem var að sama skapi fyrsti leikur Birtu í efstu deild, gerði hún sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í naumu tapi gegn Selfossi. Að margra mati hefur Birta tekið stökkið úr því að vera efnilegur leikmaður í það að vera leikmaður, sem að þjálfarar hinna liðanna leggja áherslu á að stoppa. Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára er hún farin að vekja á sér athygli í Olís-deild kvenna. Þá er vert að nefna að Birta er enn gjaldgeng með 3. flokki KA/Þórs og leikur með þeim alla leiki.

Birta Fönn er frábær fyrirmynd fyrir fjölmargar ungar og efnilegar handboltastúlkur, sem æfa hjá hkd. KA.