Dimitrov og Aldís Ásta hlutu Böggubikarinn - frábært afmæli að baki

Hristiyan Dimitrov og Aldís Ásta Heimisdóttir
Hristiyan Dimitrov og Aldís Ásta Heimisdóttir

Fullt var út af dyrum á afmælisfagnaði KA sem fram fór í KA-heimilinu í gær. Hrefna G. Torfadóttir, formaður KA, setti afmælishátíðina og fór yfir liðið ár hjá félaginu ásamt því að minnast látinna félaga á árinu 2015.

Ingvar Gíslason, varaformaður KA, var kynnir dagsins og fyrsti dagskrárliður var lesning annála deilda félagsins, sem Siguróli Sigurðsson sá um. 

Næst var úthlutað úr Jakobssjóð og fór Vignir Þormóðsson fyrir úthlutuninni. Þrjár umsóknir bárust í sjóðinn og fengu allir sem sóttu um úthlutað. Aðalbjörn Hannesson og Atli Sveinn Þórarinsson fengu einstaklingsstyrki vegna námskeiða á vegum KSÍ, ásamt því að 8 þjálfarar hjá KA fengu styrk fyrir þjálfaraferð sem farin var á liðnu hausti. 

Böggubikarinn var afhentur tveimur ungmennum, dreng og stúlku, sem skarað höfðu frammúr í sínum greinum, innan sem utan vallar. Það voru þau Hristiyan Dimitrov (blak) og Aldís Ásta Heimisdóttir (handbolti) sem hlutu verðlaunin. 

Ræðumaður dagsins var KA-maðurinn, kennarinn og rithöfundurinn, Arnar Már Arngrímsson sem fór á kostum í pontu, með hnyttinni og góðri ræðu um mikilvægi hreyfingar ungmenna og uppeldisgildi íþróttafélaga eins og KA. 

Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, afhenti síðan formönnum þriggja deilda innan KA endurnýjun á viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ, en Spaðadeildin er sú eina sem ekki hlaut slíka viðurkenningu en hún er þó langt á veg kominn með umsóknarferli sitt og er von á því að hún hljóti viðurkenninguna von bráðar.

Ingvar Gíslason lýsti síðan kjöri íþróttamanns KA en það var Ævar Ingi Jóhannesson (knattspyrna) sem hreppti hnossið í þetta skiptið en einnig voru þau Birta Fönn Sveinsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson tilnefnd. 

Loks fengu gestir að gæða sér á dýrindis tertum á margrómuðu veisluborði KA. Virkilega góður dagur að baki.

Myndir frá deginum má sjá með að smella hér