Elfar Árni: Sá stórt tækifæri í þessu hjá KA

Elfar fagnar marki með Breiðablik í sumar
Elfar fagnar marki með Breiðablik í sumar

Framherjinn Elfar Árni Aðalsteinsson skrifaði á dögunum undir 3 ára samning við KA en þessi 25 ára markamaskína frá Húsavík hefur verið hjá Breiðablik síðustu 3 ár. Félagskiptin komu mörgum í opna skjöldu enda Elfar með gildandi samning við Kópavogsliðið út komandi tímabil og hefur alla burði til að spila í Pepsi-deildinni. Í samtali við heimasíðunna segir Elfar að það hafi ekki verið erfitt að skrifa undir hjá KA eftir að hafa talað við félagið.

„KA fékk leyfi til þess að ræða við mig og kynntu mér metnaðarfulla stefnu þeirra. Ég skrifaði undir og ákvað að stökkva með og reyna taka þátt í þessum uppgangi sem verið er að stefna að. Einnig fannst mér spennandi að fara norður aftur og kynnast sumrinu á ný.” Þá segir Elfar að þjálfarateymið hafi haft sitt að segja.

 „Mér líst mjög vel á þjálfarateymið, Bjarni hefur farið víða og býr að mikilli reynslu. Túfa er mjög metnaðarfullur ungur þjálfari og ég held að þeir séu mjög góð blanda og hlakka til að komast inn í hlutina betur hér hjá KA.”

KA hefur verið fast í 1. deild síðan sumarið 2005 og pressa löngu farin að byggjast upp að komast í deild þeirra bestu, Elfar segir markmiðin ekki flókin og það sé kominn tími til að koma KA aftur í úrvalsdeild.

„Einfaldlega að gera harða atlögu að úrvalsdeildarsæti.” Sagði Elfar aðspurður um markmiðin fyrir tímabil og hélt svo áfram:  „Liðið er búið að fá til sín öfluga leikmenn og fyrir eru efnilegir og „gamlir“ góðir KA menn þannig ég sé ekki afhverju það ætti ekki að vera möguleiki. Það er orðið alltof langur tími síðan KA var í úrvalsdeild og er löngu kominn tími til að félagið spili meðal þeirra bestu.”

Elfar lék sinn fyrsta leik síðastliðinn sunnudag þegar að hann kom inná sem varamaður í 1-0 tapinu gegn Fjölni í lengjubikarnum. Fastlega má búast við því að Elfar verði í byrjunarliðinu þegar Fram kemur í heimsókn í Bogann á laugardaginn. Áður en heimasíðan kvaddi vildi Elfar koma léttum skilaboðum til KA manna:

„Ég vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta á völlinn í sumar og hjálpi okkur að gera þetta að eftirminnilegu sumri. Áfram KA.”