KA/Þór tók á móti Haukum í Olísdeild kvenna í handbolta í KA-heimilinu í dag. Stelpurnar byrjuðu með látum og náðu með frábærum leik fimm marka forystu 7 2. Þjálfarar Hauka tóku í kjölfarið leikhlé og tókst að trekkja sínar stelpur betur í gang. Smám saman komust Haukar inn í leikinn og náðu að jafna en heimastúlkur létu það ekki á sig fá, gáfu í aftur og leiddu í hálfleik 11-10.
Leikurinn var í járnum lengst af í seinni hálfleik en KA/Þór alltaf á undan. Stelpurnar tóku góða rispu þegar um tíu mínútur voru eftir og náðu þá aftur fimm marka forskoti 20-15. Það forskot tókst Haukum aldrei að brúa og lauk leiknum með sanngjörnum þriggja marka sigri KA/Þór 22-19.
Mörk KA/Þór: Birta Fönn Sveinsdóttir 10 mörk, Martha Hermannsdóttir 4, Paula Chirli 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Erla Hleiður Tyggvadóttir 1 mark og Laufey Lára Höskuldsdóttir 1 mark.
Í markinu átti Kriszta Szabó flottan leik.
Hjá Haukum var Marija Gedroit markahæst með 5 mörk, Ragnheiður Ragnarsdóttir 4, Ragnheiður Sveinsdóttir og Viktoría Valdimarsdóttir með 3 mörk hvor, Agnes Ósk Egilsdóttir, Gunnhildur Pétursdóttir, Karen Helga Díönudóttir og Karen Ósk Kolbeinsdóttir með 1 mark hver.
Eftir leikinn var Gunnar Ernir Birgisson þjálfari liðsins í viðtali við fimmeinn.is og fer viðtalið hér á eftir:
Gunnar Ernir Birgisson þjálfari KA/Þór var að vonum ánægður með sigurinn á móti Haukum í dag og sagði að hann hefði í raun ekkert endilega komið þeim sjálfum á óvart, þó margir stöldruðu við þessi úrslit. Við slógum á þráðinn til Gunnars eftir leik.
Við náum góðri byrjun og komumst í 7-2 senmma leiks og þrátt fyrir góðan kafla hjá þeim þar sem þær jafna svo í 9-9, gáfumst við aldrei upp og náum 2-3 í leiknum forystu aftur. Við vorum búin að skoða Haukana vel og þær hafa vakið eftirtekt fyrir þessa frábæru 3-2-1 vörn sína. Við aftur á móti ákváðum að svara henni þannig að við spiluðum hana bara líka, við höfum verið að gera það í undaförnum leikjum og það hentaði okkur vel í þessum leik.
Birta Fönn Sveinsdóttir var markahæst í dag með 9 mörk og hún hefur verið að koma sterk inn í vetur og hefur gert 20 mörk úr þessum 4 leikjum.
Birta er búin að taka miklum framförum, hún er ekki bara mikill markaskorari heldur góð varnarlega.Við höfum aðeins verið að vinna með skotin hjá henni úr horninu og hún er bara að uppskera það sem hún er búin að vera að leggja á sig.
Ég tel að við eigum eftir að geta strítt liðum í vetur. T.d. lentu Framstelpur sem eru með eitt besta lið landsins í töluverðum vandræðum með okkur og við vorum bara óheppnar að fá ekki meira úr þeim leik. Rúmensku stelpurnar tvær hafa verið að koma ágætlega inn hjá okkur og t.d er markvörðurinn búin að vera með 10-12 bolta varða í öllum leikjunum. Hin er skytta og hefur kannski ekki verið að skora einhvern helling, en hún er gríðarlega sterk varnarlega og er að skapa alveg heilan helling fyrir sóknarleikinn.
Stelpurnar eru allar heilar og ef við höldum öllum heilum og stelpurnar sjálfar ná að halda fókus, þá munum við spjara okkur áfram, sagði Gunnar að lokum, ánægður með fyrstu stigin og fyrsta sigurinn í deildinni.