Frábær kjötsúpufundur

Á dögunum efndi aðalstjórn KA til svokallaðs kjötsúpufundar, þar sem mættir voru stjórnarmenn í hinum ýmsu ráðum deilda félagsins svo og þjálfarar og var farið vítt og breitt yfir starfið.

Aðalstjórn hefur undanfarnin 2 og 1/2ár boðað til spjallfundar með stjórnum deilda og ráða ásamt þjálfurum. Þessi fundir eru tvisvar á ári, í byrjun vetrar og svo að vorlagi. Við reynum að hafa eitthvað í gogginn og sitjum svo og spjöllum saman. Þar kynna forsvarsmenn deilda og ráða starfið framundan og/eða nýliðið og svara spurningum hinna deildanna.

Á miðvikudaginn í síðustu viku var einmitt einn slíkur fundur þar sem við gæddum okkur á dýrindis kjötsúpu að hætti varaformanns og var henni gerð mjög góð skil. Þessi fundur var mjög vel sóttur og stemning hin notalegasta. Spurningar og svör gengu á víxl og allir virtust njóta stundarinnar vel.

Ég gat náttúrlega ekki setið á mér þá að minnast aftur á að skrifað var undir samning um gervigrasvöllinn þann 9. nóvember sl.  Ég má líka til með að minnast á það hér að mér var ákaflega létt í sinni þann dag er ég gekk inn á skrifstofu bæjarstjóra til að skrifa undir samninginn. Við skulum óska okkur öllum til hamingju, gervigrasvöllurinn mun gjörbreyta útiaðstöðu okkar.

Mig langar að þakka þeim sem gátu komið á kjötsúpufundinn og ég vil líka þakka alveg sérstaklega öllu því frábæra fólki sem vinnur fyrir félagið okkar, starfsfólki, þjálfurum og síðast en alls ekki síst öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óteljandi stundir fyrir félagið og gera það að því góða félagi sem það er.

Áfram KA!

Hrefna, formaður KA