Hallgrímur Mar til KA á nýjan leik

Hallgrímur og Túfa við undirritun samningsins
Hallgrímur og Túfa við undirritun samningsins

KA hefur komist að samkomulagi við Víking R. um kaup á sóknarmanninum Hallgrími Mar Bergmann. Hallgrímur skrifaði í dag undir samning við KA, sem gildir til næstu fjögurra ára.

KA-menn ættu að vera Hallgrími kunnugir, en pilturinn gekk fyrst til liðs við KA árið 2009. Hann lék með KA fram á haust 2014 en samdi þá við Pepsi-deildar liðs Víkinga. Þar lék hann 14 leiki síðasta sumar og skoraði 4 mörk.

Grímsi, eins og hann er oftast kallaður, er 25 ára gamall sóknarmaður. Hann lék mest á hægri kanntinum á árunum hjá KA og síðasta sumarið sitt hjá KA skoraði hann 10 mörk í 23 leikjum og átti fjöldann allan af stoðsendingum.

Knattspyrnudeild KA er gríðarlega ánægð með að hafa náð samningum við Hallgrím og sagði Túfa, þjálfari, í stuttu spjalli við heimasíðu KA að Hallgrímur væri mikill fengur: „Það er mjög gott að vinna með Hallgrími og hann hefur sýnt að hann getur verið einn mikilvægasti leikmaðurinn í 1. deildinni. Þegar það varð ljóst að hann hefði áhuga á að koma aftur í KA var ég mjög ánægður.“

Þá sagði Hallgrímur einnig að hann væri mjög spenntur fyrir verkefninu: „Þetta er flottur hópur og það er mikill metnaður í félaginu. ... Ég er mikill KA-maður og markmiðin eru auðvitað mjög háleit fyrir næsta sumar“. 

Hér fyrir neðan má sjá video-viðtöl við Hallgrím og Túfa frá því í dag.