Knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson og blakkonan Julia Bonet Carreras voru í dag kjörin íþróttafólk KA en úrslitin voru kunngjörð á 98 ára afmælisfögnuði KA í dag.
Þetta er annað árið í röð sem Julia er kjörin íþróttakona KA en hún hefur átt stórkostlegar frammistöður í blakliði KA sem er Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Hallgrímur Mar átti frábært sumar þar sem hann varð markahæsti leikmaður KA og var valinn í lið ársins í Bestudeildinni. Er þetta í annað sinn sem Grímsi er kjörinn íþróttakarl KA en hann var einnig kjörinn árið 2023.
Alex Cambray Orrason úr lyftingadeild KA varð annar í kjörinu til íþróttakarls KA og þá voru þeir Bjarni Ófeigur Valdimarsson (handknattleiksdeild) og Zdravko Kamenov (blakdeild) jafnir í 3. sæti.
Lyftingakonan Drífa Ríkarðsdóttir varð önnur í kjörinu til íþróttakonu KA og handknattleikskonan Anna Þyrí Halldórsdóttir varð þriðja.

Hallgrímur Mar Steingrímsson átti enn og aftur mjög gott sumar með KA árið 2025 og var valinn besti leikmaður liðsins. Hann fór fyrir markaskorun félagsins og var markahæstur liðsins með 16 mörk í sumar en hann skoraði þrettán mörk í Bestu deildinni, tvö í UEFA Sambandsdeildinni og eitt í Mjólkurbikarnum.
Frammistaða Hallgríms skipti sköpum að lið KA náði að snúa taflinu við í sumar og enda tímabilið vel eftir erfiða byrjun, að sumrinum loknu var hann verðlaunaður með því að vera valinn í lið ársins í Bestu deildinni á flestum miðlum. Hallgrímur sýndi einnig hversu öflugur leikmaður hann er í Evrópuleikjunum gegn Silkeborg IF þar sem hann var meðal bestu manna í einvíginu en jöfnunarmark hans á lokamínútum leiksins í Danmörku sýndi enn og aftur töfrana sem Hallgrímur býr yfir. Hallgrímur Mar er bæði leikjahæsti og markahæsti knattspyrnuleikmaður í sögu KA og var tímabilið í ár enn ein staðfestingin á að hann er einn af bestu leikmönnum í sögu efstu deildar á Íslandi.

Julia Bonet Carreras átti frábært tímabil með meistaraflokki kvenna í blaki og er afar mikilvægur leikmaður fyrir KA liðið sem stóð uppi sem handhafi allra stóru titlanna og er liðið því Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Julia sem spilar stöðu kantsmassara var stigahæsti leikmaðurinn í efstudeild á síðasta tímabili ásamt því að vera besti uppgjafarinn. Hún var í liði ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu ásamt því að vera valinn besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve mögnuð hún er.
Julia er jákvæð, hvetjandi og góður liðsfélagi sem okkar ungu og efnilegu stúlkur líta upp til. Hún hefur líka náð góðum árangri sem þjálfari hjá okkur í yngri flokkum. Julia ásamt Zdravko sá um allar æfingar í strandblakinu í sumar. Í ár sendi Ísland karla og kvenna lið í U19 og U17 flokk á evrópumót og átti KA 7 fulltrúa af 16 krökkum á aldrinum 16-19 ára. Ljóst er að strandblakið er á mikilli siglingu undir forystu Juliu, Zdravko og KA.

Alex Cambray hefur átt gríðarlega gott ár í sinni íþrótt, kraftlyftingum og haldið þar með áfram að byggja ofan á árangur síðustu ára. Hann sló þrjú Íslandsmet á árinu og varð Íslandsmeistari óháð þyngdarflokki fjórða árið í röð. Hann toppaði svo árið með því að ná silfri í hnébeygju á Evrópumeistaramótinu í Tékklandi í maí þar sem hann keppti í -93kg flokki.
Hann sinnir stöðu formanns lyftingardeildar KA sem og að vera yfirþjálfari kraftlyftinga innan deildarinnar. Alex hefur verið mikill burðarstólpi í starfi og þróun Lyftingardeildarinnar. Þar sem hann hefur tekið stóran þátt í starfi deildarinnar, sérstaklega þegar kemur að fjölgun iðkennda og stuðning við þá. Í febrúar keppti Alex á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði, þar sem hann átti mjög gott mót og sigraði bæði eigin þyngdarflokk sem og samanlögðu óháð þyngdarflokki. Alex sló á mótinu sitt eigið íslandsmet í samanlögðu með 857.5kg eða 340kg í hnébeygju, 225kg í bekkpressu og 287.5kg í réttstöðulyftu.
Í maí keppti Alex á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Pilzen í Tékklandi. Þar sem hann átti frábært mót sem skilaði honum í 4. sæti samanlagt í -93kg flokki með 835kg í samanlögðu. Það sem stóð upp úr á mótinu var að hann sló eigið Íslandsmet í hnébeygju með 357.5kg sem skilaði honum 2. sæti í hnébeygju á mótinu. Núna í nóvember 2025 keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var í Rúmeníu. Mótið gekk ágætlega hjá honum og endaði hann þar í 9. Sæti. Í sínum þyngdarflokk.
Alex lýkur árinu sem 13. öflugasti lyftari ársins á heimslista alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF) sem er bæting frá fyrra ári. Einnig varð hann í 8. sæti á styrkleikalista Evrópskra lyftingasambandsins (EPF).

Drífa Ríkarðsdóttir átti einstaklega gott ár og endar hún árið sem næststigahæsta kona ársins í klassískum kraftlyftingum. Hún hefur staðið sig afar vel á alþjóðavettvangi og verið frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar. Í febrúar tók Drífa þátt á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem haldið var á Spáni. Þar stóð hún sig með prýði og hafnaði í 11. sæti í -57 kg flokki með 392,5 kg í samanlögðum árangri.
Drífa keppti einnig á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi þar sem hún átti gott mót í afar sterkum flokki. Hún endaði í 22. sæti og náði sama samanlagða árangri, 392,5 kg.Drífa er glæsileg fyrirmynd í öllu sem tengist kraftlyftingum, hvort sem hún stígur sjálf á keppnispallinn eða styður og aðstoðar aðra iðkendur. Eftir svona sterkt ár verður spennandi að fylgjast með henni á nýju ári og sjá hvernig hún byggir ofan á þann frábæra árangur sem hún hefur náð hingað til.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson er 27 ára gamall leikmaður KA í handbolta og er tilnefndur frá handknattleiksdeild til íþróttamanns KA 2025. Bjarni hefur leikið nær óaðfinnanlega í gula búningnum á núverandi keppnistímabili og er markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar með 128 mörk eftir fyrstu 15 leiki tímabilsins. Þá er Bjarni með tæplega 10 sköpuð færi í hverjum leik og rúmlega 7 stoðsendingar.
Bjarni gekk til liðs við KA fyrir tímabilið 2024-2025 og var að jafna sig eftir aðgerð á hásin en hefur svo sannarlega vaxið með hverjum leik og er gríðarlega mikilvægur hluti af sterku KA liði í ár sem hefur komið mörgum á óvart og er í toppbaráttu í efstudeild auk þess sem liðið tryggði sér nýverið sæti í bikarúrslitahelginni. Þá var Bjarni valinn í 35 manna æfingahóp íslenska landsliðið fyrir EM sem fer fram nú í janúar 2026 sem er mikil viðurkenning á hans öfluga leik. Við hjá KA erum stolt af því að hafa jafn öflugan handboltamann og Bjarna innan okkar raða og er hann vel af því komin að vera handknattleiksmaður KA árið 2025.

Zdravko Kamenov átti enn eitt frábært tímabil með meistaraflokki KA í blaki og er einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Zdravko spilar stöðu uppspilara og stýrir sóknarleik liðsins af yfirvegun og natni en karlalið KA hampaði öllum stóru titlunum árið 2025 og stóð uppi sem Íslands-, Bikar og Deildarmeistari. Zdravko var valinn í lið ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu sem besti uppspilarinn ásamt því að vera valinn besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve magnaður hann er. Þá var hann valinn besti leikmaður bikarúrslitaleiksins er KA lagði Þrótt Reykjavík.
Zdravko les leikinn vel og er leiðtogi á vellinum sem leiðir liðið sitt áfram af yfirvegun og hvetur liðsfélaga sína áfram með framgöngu sinni á vellinum. Utan vallar er hann einnig virkur og er alltaf boðinn og búinn að sinna tilfallandi störfum sem falla til, hvort sem það er í fjáröflun eða sjálfboðastörfum fyrir félagið. Zdravko ásamt Juliu sá um allar æfingar í strandblakinu í sumar en þau hafa byggt upp ákaflega öflugt starf hjá KA í strandblakinu. Í ár sendi Ísland karla- og kvenna lið í U19 og U17 flokk á evrópumót og átti KA 7 fulltrúa af 16 krökkum á aldrinum 16-19 ára. Ljóst er að strandblakið er á mikilli siglingu undir forystu Zdravko, Juliu og KA.

Anna Þyrí Halldórsdóttir er lykilmaður í handboltaliði KA/Þórs sem vann Grilldeild kvenna á síðasta tímabili. Hún var kosin varnarmaður ársins í deildinni á lokahófi HSÍ að mati leikmanna og forráðamanna félaganna. Anna Þyrí er öflugur línumaður, gríðarlega ósérhlífin og mikill leiðtogi innan liðs KA/Þór.
Anna hefur spilað gríðarlega vel í Olísdeild kvenna í vetur en nýliðar KA/Þórs hafa komið mörgum á óvart með framgöngu sinni. Hún er mjög öflug á báðum helmingum vallarins, skorar mikið af línunni og spilar svo gríðarlega mikilvægt varnarhlutverk.