Helga Hansdóttir Íþróttamaður KA 2011

Helga Hansdóttir, Íþróttamaður KA 2011. Mynd: Þórir Tryggvason.
Helga Hansdóttir, Íþróttamaður KA 2011. Mynd: Þórir Tryggvason.

Helga Hansdóttir, júdókona, var í dag, á 84. ára afmælisdegi KA, útnefnd Íþróttamaður KA 2011. Aðrir í kjörinu voru Martha Hermannsdóttir, handknattleikskona, Haukur Heiðar Hauksson, knattspyrnumaður og Filip Pawel Szewczyk, blakmaður.

Helga Hansdóttir er 18 ára gömul. Hún á ekki langt að sækja júdóhæfileikana því faðir hennar er Hans Rúnar Snorrason, margfaldur Íslandsmeistari í júdó og fyrsti Akureyringurinn til að vinna til verðlauna á alþjóðlegu júdómóti.
Helga hefur æft júdó frá 11 ára aldri og orðið Íslandsmeistari 11 sinnum. Hún stundar nám við Menntaskólann á Akureyri og mun útskrifast þaðan næsta vor, ári á undan jafnöldrum sínum.
Helga meiddist í janúar 2011, fékk heilahristing og keppti því ekki eins mikið erlendis fyrir vikið. Þrátt fyrir meiðslin sigraði hún á öllum júdómótum innanlands og missti ekki úr æfingu.
Á liðnu ári varð hún Íslandsmeistari í U20 í -63 kg flokki, Íslandsmeistari í fullorðinsflokki kvenna í -63 kg flokki, vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í -57 kg í U20. Þá vann hún til gullverðlauna á afmælismóti Júdósambandsins og var valin júdókona mótsins. Þá útnefndi Júdósambandið hana júdókonu ársins í sínum aldursflokki.

Allir íþróttamennirnir fjórir fengu afhenta svokallaða formannabikara til eignar, en þá gripi gefa fyrrverandi formenn KA. Þá fékk Helga Hansdóttir afhentan sérstakan formannabikar til eignar fyrir að vera útnefnd Íþróttamaður KA 2011. Einnig fékk hún afhentan stórglæsilegan farandgrip, sem Arionbanki hefur gefið og var nú afhentur í fyrsta skipti.

Knattspyrnufélag Akureyrar færir fyrrverandi formönnum KA og Arionbanka miklar og góðar þakkir fyrir þann rausnarskap að gefa verðlaunagripi til kjörs Íþróttamanns KA.