Íþróttamaður KA 2013

Alda Ólína íþróttamaður KA 2012
Alda Ólína íþróttamaður KA 2012

Eftirfarandi íþróttamenn hafa verði tilnefndir sem íþróttamaður KA 2013 en kjörið verður kunngjört á sunnudaginn 12 janúar.

Knattspyrnudeild:

Hallgrímur Mar Steingrímsson var útnefndur Knattspyrnumaður KA  á lokahófi knattspyrnudeildar sl. haust en leikmenn og þjálfarar ásamt stjórnarmönnum eru kjörgengir.  Hallgrímur sem er á 24 áldursári kom til lið við okkur frá uppeldisfelagi sínu Völsungi árið 2009.

Hallrgímur sem er varafyrirliði mfl á  að baki 90 leiki fyrir mfl og hefur skorað í þeim 28 mörk fyrir KA.

Hallgrímur lék vel með mfl í sumar,  reyndist andstæðingum erfiður ljár í þúfu.   Ekki fór á milli mála hve  mikið við söknuðum hans  þegar Hallgrímur meiddist og var frá um tíma.  Hallgrímur gefur alltaf  allt sitt í leikinn, hann er hvetjandi og jákvæður við liðsfélaga sína og alltaf til í að leggja sitt af mörkum.  Hann var markakóngur  mfl. í sumar með 7 mörk og átti 8 stoðsendingar.

Vinir Móða sem er hópur stuðingsmanna mfl kaus Hallgrím einnig sem besta leikmann liðsins sl. sumar, því má með sanni segja að Hallgrímur sé verðskuldaður knattspyrnumaður KA fyrir árið 2013


Handknattleiksdeild

Handknattleiksdeild KA tilnefnir Birtu Fönn Sveinsdóttur til íþróttamanns KA fyrir árið 2013.

Birta Fönn Sveinsdóttir er fædd árið 1996 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið einn af burðarásunum í úrvalsdeildarliði KA/Þórs í handbolta það sem af er vetri. KA/Þór tók þátt í utandeild kvenna síðasta vetur, og vann hana.  Þar var Birta í aðalhlutverki, þrátt fyrir að vera aðeins nýorðin 17 ára gömul. 

Í vor var hún valin í U-18 ára liði Íslands og keppti með því í undankeppni EM.   Birta leikur veigamikið hlutverk í þessu landsliði og skoraði hún 11 mörk í þremur leikjum fyrir liðið, ásamt því að spila fyrir framan vörn íslenska liðsins. Liðinu gekk ekki sem skyldi og vann aðeins einn af þessum þremur leikjum sínum og komst því ekki í lokakeppnina. 

Í sumar varð síðan ljóst að KA/Þór myndi taka þátt í úrvalsdeildinni á nýjan leik eftir eins árs fjarveru. Liðið hefur farið ágætlega af stað í vetur og hefur krækt í fleiri stig en nokkur þorði að vona í haust. Liðinu var spáð lang neðsta sæti deildarinnar en er sem stendur 9.-11. sæti með 5 stig, og á einn leik til góða á liðin fyrir ofan en með sigri í næsta leik getur KA/Þór skellt sér í 7. sætið, en það sæti gefur þáttökurétt í úrslitakeppni í vor.

Birta hefur leikið stærstan partinn úr öllum 10 leikjum vetrarins með liðinu sem vinstri skytta.  Hún hefur skorað yfir 30 mörk í þeim, ásamt því að leika stórt hlutverk í vörninni. Í fyrsta leik liðsins í vetur, sem var að sama skapi fyrsti leikur Birtu í efstu deild, gerði hún sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í naumu tapi gegn Selfossi. Að margra mati hefur Birta tekið stökkið úr því að vera efnilegur leikmaður í það að vera leikmaður, sem að þjálfarar hinna liðanna leggja áherslu á að stoppa. Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára er hún farin að vekja á sér athygli í Olís-deild kvenna. Þá er vert að nefna að Birta er enn gjaldgeng með 3. flokki KA/Þórs og leikur með þeim alla leiki.

Birta Fönn er frábær fyrirmynd fyrir fjölmargar ungar og efnilegar handboltastúlkur, sem æfa hjá hkd. KA.

Blakdeild

Ævarr Freyr Birgisson er fæddur 16. nóvember 1996.  Ævarr hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri og náð mjög góðum árangri.  Hann spilar nú með 2. flokki og meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðanna á árinu.

Á leiktímabilinu 2012-2013 spilaði hann með 2. og 3. flokki auk meistaraflokks.   Í 2. og 3. flokki varð hann bikarmeistari með félögum sínum og á Íslandsmótinu urðu þeir í 2. sæti.   Í meistaraflokki náðu hann og félagar hans 2. sæti á Íslandsmóti karla og bronsi í Mikasadeild BLÍ. 

Ævarr Freyr var valinn efnilegasti leikmaður Mikasadeildarinnar á lokahófi BLÍ s.l. vor.  Þá var hann einnig valinn í U17 og U19 landsliðin sem léku á NEVZA mótum (Norðurevrópumóti) í Danmörku og Englandi nú í haust.
Ævarr Freyr hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað,  sem þarf til að ná árangri í íþróttinni og er ástundun hans til fyrirmyndar í alla staði.