Deildir tilnefna íþróttamann sinnar deildar og er sá íþróttamaður síðan í kjöri til Íþróttamanns KA. Fyrrverandi formenn gefa hverju þeirra bikar til eignar og að auki fær Íþróttamaður KA hinn svokallað Formannabikar til eignar sem einnig er gefinn af fyrrverandi formönnum félagsins.
Íþróttamenn deilda 2014 eru:
Ævarr Freyr Birgisson, frá blakdeild
Ævarr hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri og náð mjög góðum árangri. Hann spilar nú með 2. flokki og meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðanna á árinu. Ævarr spilaði með U-17 og U-19 ára landsliðum Blaksambandsins á NEVZA mótum (Norðurevrópumót) í Englandi og Danmörku nú í. S.l. vor var hann valinn í æfinghóp fyrir A-landsliðið og tók þátt í æfingum þess bæði þá og nú í jólafríinu. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsliðsleik nú á dögunum. Ævarr hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað, sem þarf til að ná árangri í íþróttinni og er ástundun hans til fyrirmyndar í alla staði.
Martha Hermannsdóttir, frá handknattleiksdeild.
Martha hefur löngum leikið handknattleik með KA/Þór. Undanfarin ár hefur hún verið í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu og mikilvægi hennar fyrir liðið verður seint metið til fulls. Í fyrra lék hún gríðarlega stórt hlutverk og manna best hjá liðinu sem endaði í 10.-11. sæti í Olís-deild kvenna. Martha skoraði 155 mörk í 22 leikjum fyrir liðið. Það gera ríflega 7 mörk að meðaltali í leik. Liðið skoraði 499 mörk þennan veturinn og gerði Martha því ríflega 30% marka liðsins. Í sumar framlengdi Martha síðan samning sinn við KA/Þór og tók einnig við sem aðstoðarþjálfari liðsins. Gengi liðsins í vetur hefur verið brösótt en Martha heldur uppteknum hætti í markaskorun og skorað 57 mörk í 9 leikjum, eða 6,3 að meðaltali í leik. EKki nóg með að Martha skori langmest í liðinu, þá spilar hún gríðarlega mikilvægt hlutverk í vörninni.
Srjdan Raikovic Rajko, frá knattspyrnudeild.
Rajko gekk til liðs við KA rétt fyrir tímabilið í sumar og átti með KA frábært tímabil. Hann var kosinn besti leikmaður tímabilsins af þjálfurum, leikmönnum og stjórn knattspyrnudeildar á lokahófi í haust en hann hafði oft mikið að gera milli stanga KA og var eins og klettur oft og tíðum. "Rajko" hefur fallið vel inní hóp okkar KA manna og verið hvers manns hugljúfi og góð fyrirmynd fyrir alla iðkenndur knattspyrnu hjá félaginu.