Jafntefli hjá KA/Þór og Selfossi í Olís-deild kvenna

Selfoss mætti til Akureyrar til að etja kappið við KA/Þór í Olís-deild kvenna í dag, sunnudag. Í fyrsta leik á tímabilinu mættust þessi lið á Selfossi þar sem Selfoss sigraði 25-24. Nú voru stelpurnar í KA/Þór staðráðnar í að ná í sigur og búist var við hörku leik milli liðanna.

Þessi umfjöllun er fengin hjá Jóni Stefáni Jónssyni á Norðursporti.net.

Þegar leikurinn var flautaður á sást langar leiðir að stelpurnar í KA/Þór voru engan vegin í stakk búnar til að takast á við Selfoss því þær lentu strax undir og í stöðunni 1-5 tóku þjálfarar KA/Þórs leikhlé aðeins til að brýna sínar stúlkur. Eftir leikhléið gekk þó samt erfiðlega hjá heimaliðinu og Selfoss hélt áfram að skora og komst m.a. 3-9 yfir. Þá loksins kviknaði á heimaliðinu. Þær náðu að minnka muninn og þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik voru heimastúlkur komnar í ham. Þær minnkuðu muninn í 8-12 og hélst sá munur þar til í hálfleik en þá var staðan 12-16 fyrir Selfoss.

Í seinni hálfleik komu stelpurnar í KA/Þór alveg gjörsamlega dýrvitlausar til leiks og skoruðu fyrstu 3 mörk hálfleiksins og munurinn því kominn niður í 1 mark og allt stefndi í spennandi leik, sem varð svo raunin. Liðin skiptust svo á að skora næstu mínútur en KA/Þór náði að jafna metin í stöðunni 20-20 og komst svo yfir 22-20 með fanta góðri vörn og klókum sóknarleik.

Selfoss náði að jafna en KA/Þór ávalt hálfu skrefi á undan. Þegar um mínúta var eftir af leiknum var staðan 27-26 KA/Þór í vil og Selfoss í sókn. Þær stilla upp fyrir Hrafnhildi Hönnu, þeirra aðal skyttu og hún skoraði og jafnaði metin. KA/Þór hélt í sókn og tók leikhlé þegar hálf mínúta var eftir. Þá settu þjálfarar KA/Þórs upp leikkerfi sem stelpurnar tóku þegar leikurinn fór af stað aftur, kerfið gekk fullkomlega upp og fékk Erla Hleiður Tryggvadóttir boltann á línunni en skot hennar geigaði og þar við sat. Lokatölur í leiknum 27-27.

Mörk KA/Þór: Birta Fönn Sveinsdóttir 7, Martha Hermannsdóttir 7, Katrín Vilhjálmsdóttir 6, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 3, Erla Hleiður Tryggvadóttir og Laufey Bára Höskuldsdóttir 2 mörk hvor.

Sjá myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.