Jóhann Helgason: Hér líður mér best

Hjörvar og Jóhann við undirskrift / KA-Sport
Hjörvar og Jóhann við undirskrift / KA-Sport

Jóhann Helgason skrifaði í dag undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt eftir að hafa verið í herbúðum Grindvíkinga frá árinu 2006 að undanskildu árinu 2012 er hann kom til okkar KA manna á láni.

Jóhann kvaðst hinn ánægðasti með að vera kominn norður í blíðuna en mikil snjókoma tók á móti honum við komuna til Akureyrar.

"Þetta er náttúrulega uppeldisklúbburinn minn. Hérna líður mér best og hef ég ákveðin markmið hér sem ég vil klára hjá KA."

Jóhann kom eins og áður sagði á láni til KA sumarið 2012. Töluverðar breytingar hafa orðið á KA liðinu síðan þá og Bjarni og Túfa teknir við. 

"Mér líst mjög vel á Bjarna og Túfa sem þjálfarateymi. Það er greinilega mikill metnaður og allt mjög fagmannlegt hjá þeim. Liðið er mjög ungt og efnilegt. Yngri flokka starfið hjá KA er búið að vera mjög gott og er það nú að skila sér upp í meistaraflokk. Ég get vonandi bætt liðið með reynslu og gæðum"

Bjarni Jóhannsson var afar ánægður með komu Jóhanns.

"Mér líst mjög vel á hann. Það 
eru gríðarlega breytingar á leikmannahópnum hjá okkur og tókum við þá stefnu í haust að byggja upp nýtt lið og ég hef alltaf sagt að það er frábært að sjá stráka sem eru aldir upp hjá klúbbnum sem hafa gert það gott annars staðar koma til baka. Í Jóa fáum við ákveðinn foringja í þennan unga leikmanna hóp."

Að lokum sagði Bjarni.

"
Við fengum Atla í fyrra og Jóa núna og þetta styrkir stoðir okkar. Framtíðin er björt hjá klúbbnum og markmiðin háleit og eðlileg. Tilkoma Jóa er frábær fyrir liðið og við munum mæta til leiks með töff lið í vor."