Okkur Akureyringum er nú horfinn sjónum einn fremsti forystumaður félagsstarfa hér í bæ um áratuga skeið og fyrrverandi formaður KA. Jón S. Arnþórsson, fyrrum fulltrúi hjá SÍS og safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri, andaðist á FSA sunnudaginn 23. Janúar,79 ára að aldri.
Jón fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1931 en ólst upp hér á Akureyri. Eftir stúdentspróf frá MA 1951 og heimspekipróf frá HÍ 1952 var hann í þrjú ár við nám í New York á sviði sölu- og auglýsinga- og framkvæmdastjórnunar. Eftir það, eða frá 1956 – 1992 vann hann nær óslitið hjá SÍS sem fulltrúi eða stjórnandi hinna ýmsu deilda, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hann var gæddur mikilli starfsorku og áhuga og leituðu mörg fyrirtæki og nefndir aðstoðar hans. Ungur að árum hreifst hann mjög af hugsjónum Samvinnuhreyfingarinnar og Framsóknarflokksins og vann þeim alla tíð allt það gagn er hann mátti, enda skipaður þar í virðingarstöður.
Hann var ötull talsmaður nýjunga og framfara á ótal sviðum og ritaði þó nokkrar greinar um rannsóknir og nýtingu varma og orku í iðrum jarðar, ekki síst hér í Eyjafirði, sínu heimahéraði sem hann bar mjög fyrir brjósti. Hann lét hverki bugast þótt hann fengi allhvöss andmæli frá verndarsinnum.
Vinnan og hagur fólksins var honum ætíð hugstætt. Hópur fólks að vinnu við stórar vélar Sambandsins var honum dagleg sýn og greyptist sú mynd í huga hans, enda daglegt umræðuefni þegar hann var að alast upp því faðir hans var verksmiðjustjóri í einni af verksmiðjum SÍS.
Jón hóf um 1992 að safna ýmsum vélum, smærri munum, myndum og fleiru varðandi verklag og verkmenningu fyrri ára sem hann taldi eðlilegt og sjálfsagt að bjarga frá gleymsku og festa í vitund manna. Safnið jókst dag frá degi og var loks formlega opnað 17. Júní 1998 í húsnæði Heklu á Gleráreyrum en núverandi húsnæði á Krókeyri fékk safnið 1. maí 2004.
Á unglingsárum keppti Jón fyrir KA í sundi og frjálsum íþróttum og vann þar oft til verðlauna, einkum í spretthlaupum. Formaður KA var hann árin 1980 – 1983 og gekk þar sem vænta mátti til verks af röskleika og nákvæmni. Vetrarátíðinni á Akureyri árið 1980 stjórnaði hann ásamt öðrum af dugnaði og vandvirkni. Jón hlaut verðskuldaðar viðurkenningar fyrir mikil félagsstörf, m.a. Paul Harris orðu Rotary og gullmerki KA. Jón fékk einnig Fálkaorðuna árið 2008, ekki síst fyrir hið mikla afrek hans, Iðnaðarsafnið. Það var gleðistund í lífi Jóns og hans traustasta aðstoðarmanns, Giselu eiginkonu hans, og sigurstund þeirra beggja.
KA-menn, yngri sem eldri, kveðja nú sinn trygga og dugmikla fyrrverandi formann með þakklæti og virðingu og biðja honum allrar blessunar í nýjum heimi.
Giselu og fjölskyldu þeirra Jóns sendum við innilegar samúðarkveðjur og þakkir.
Hrefna G. Torfadóttir, formaður KA
Haraldur Sigurðsson, fyrrverandi formaður KA