Á dögunum samdi króatíski kantmaðurinn, Juraj Grizelj, við KA en hann var samningslaus eftir að hafa yfirgefið Grindavík eftir síðasta tímabil. Þar hafði hann leikið tvö sumur og vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína. Hann var m.a í liði ársins í 1.deildinni 2013 og margir muna eftir honum á Akureyrarvelli 2013 þegar hann upp á sitt einsdæmi gekk frá KA liðinu í einum hálfleik.
Í 44 leikjum með Grindavík skoraði Juraj 21 mark, einnig var hann iðinn við að skapa færi fyrir liðsfélaga sína og er með ótal stoðsendingar á bakinu. Þessi 28 ára gamli Króati er spenntur fyrir áskoruninni framundan og segir hann aðspurður að Jóhann Helgason, kenndur við Sílastaði, hafi haft frumkvæðið í að koma honum til Akureyrar
Það var góðvinur minn, Jói Helga, sem var aðalástæðan fyrir því að ég skoðaði hvað KA hafði að segja. Hann hafði nefnt reglulega við mig að ég þyrfti að koma til Akureyrar þannig ég tók skrefið. Ég ræddi í kjölfarið við Túfa sem gaf mér betri sýn á klúbbinn og fyrir hvað hann stendur, eftir það var ekki erfitt að ná samkomulagi við Sævar framkvæmdarstjóra, sagði Juraj í samtali við heimasíðuna og hefur hann miklar væntingar fyrir liðið og sjálfan sig næsta tímabil.
Væntingarnar eru á hæsta stigi hjá mér persónulega, ég vil vera í sæti sem skilar okkur í úrvalsdeild, allt annð er tímasóun... og einnig sýna fólki hvaða lið er besta lið bæjarins bætti hann við.
KA hefur fengið til sín sterka og reynslumikla leikmenn fyrir komandi tímabil. Þeir munu koma til með að blanda sér inní efnilegan og flottan hóp heimamanna sem KA á fyrir.Það og fleira heillaði okkar mann Juraj.
Ég held að orðið metnaður eigi best við með því að fá svona sterka leikmenn til liðsins og það gleður mig að sjá þá leikmenn sem hafa komið og styrkt hópinn mikið, hóp sem var fyrirfram mjög sterkur að mínu mati.
Þeir KA menn sem fylgst hafa með pilt síðustu tvö ár og vita hvað í hann er spunnið eru gríðarlega spenntir fyrir því að sjá hann í KA treyjunni og það gleður Króatann að fólk taki eftir hæfileikum hans og kunni að meta komu hans.
Það er alltaf mjög gaman þegar fólk tekur eftir manni og hrósar manni, ég er tilbúinn að taka við allri þeirri pressu og ábyrgð sem fólk setur á mig og reyni að gera gæfumuninn hverju sinni til að tryggja okkar liði 3 stig!.
Það er greinilegt að Juraj setur markið hátt en hann býst við því að vera mættur í höfuðstað norðulands í byrjun apríl.
Ég mæti í byrjun apríl og næ vonandi seinasta leiknum í Lengjubikarnum. Það á reyndar ennþá eftir að vinna úr einhverjum pappírum og þess háttar áður en ég get farið frá Króatíu.
Að lokum hafði hann þetta að segja:
Jói (Helga) sýndi mér hversu flottur andi er í og kringum klúbbinn. Hann sýndi mér meðal annars 3-2 sigurinn á Þór 2012 og það sýndi mjög vel hversu frábæra stemningu KA menn geta búið til. Ég trúi að þið getið hjálpað liðinu mikið með ykkar stemmingu og hjálpað okkur að komast í Pepsi deildina, liðið mun að sjálfsögðu gera sitt allra besta á vellinum til að koma ykkur til að brosa. ÁFRAM KA
Myndir: Sævar Geir og Hafliði Breiðfjörð
Fyrir þá sem vilja sjá eitthvað af kappanum þá er hér lítið myndband með tilþrifum hans á síðasta tímabili
- Jóhann Már Kristinsson