KA fær Ásgeir Sigurgeirsson á láni frá Stabæk

KA og Stabæk hafa komist að samkomulagi um að KA fái Ásgeir Sigurgeirsson að láni út leiktímabilið 2016.

Ásgeir er 19 ára gamall framherji sem er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík. Ásgeir hélt á vit ævintýranna til Stabæk í janúar 2014. Meiðsl hafa sett strik í reikning Ásgeirs sem er nú orðinn heill heilsu og mun leika í gulu og bláu næsta sumar.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leikið yfir 40 leiki með Völsungi  í deild og bikar og skorað í þeim 9 mörk.  Þá hefur Ásgeir leikið 12 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 4 mörk.

KA-menn bjóða Ásgeir hjartanlega velkominn til liðsins.