Á laugardaginn fer fram leikur KA og Hauka á sígrænum KA-vellinum. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og eru sem fyrr þrjú stig í boði fyrir þá sem fara með sigur að hólmi.
Haukar hafa 3 stig af loknum tveimur leikjum en þeir töpuðu í fyrstu umferð í Ólafsvík 1-0 en lönduðu svo góðum sigri gegn Grindavík í síðustu umferð, 1-0. KA er með fjögur stig eftir jafntefli í fyrstu umferð gegn Fram og sigur gegn Fjarðarbyggð um síðustu helgi.
Það hefur verið siður upp á Skipaskaga að á leikdegi hengi fólk út þær treyjur, fána eða flögg sem þeir eiga merkt ÍA, hvort sem það sé út á snúrustaur, út í glugga eða á svalir eða jafnvel fánastöng. Áskell Gíslason, KA-maður, vakti athygli á þessum sið fyrir heimaleikinn gegn Fram og tóku Brekkubúar og aðrir KA-menn vel í þetta framtak. Við hvetjum því fólk til þess að gera slíkt hið sama á laugardaginn, hengja út KA-treyjurnar sínar, fánana eða flöggin!