KA vann fyrsta leikinn gegn Stjörnunni á útivelli en Stjörnumenn sneru taflinu við í öðrum leik í KA-heimilinu og unnu öruggan og sannfærandi sigur. Í leiknum syðra í kvöld horfði í að Garðbæingar færu með sigur á hólmi. Þeir unnu tvær fyrstu hrinurnar. Þá sögðu KA-menn hingað og ekki lengra og unnu næstu tvær hrinur. Þar með var ljóst að oddahrinu þyrfti til þess að skera úr um hvort liðið færi í úrslitarimmuna gegn HK. Og reynslan dugði KA-mönnum. Þeir sigruðu oddahrinuna með 15 stigum gegn 4 og því ljóst að framundan er úrslitaslagur við HK um Íslandsmeistaratitilinn. HK á heimaleikjaréttinn - var ofar á stigatöflunni í deildarkeppninni - og því hefst slagurinn í Fagralundi í Kópavogi.
Nú fjölmennum við í KA-heimilið og styðjum strákana þegar þeir taka á móti Kópavogsbúum. Nánar um það síðar.