KA-lið vikunnar - Forsprakkarnir

Mynd úr markaleik KA og Þórs í Apríl 1928. Mynd: V.Sigurgeirsson
Mynd úr markaleik KA og Þórs í Apríl 1928. Mynd: V.Sigurgeirsson
Í dag hefur göngu sína nýr liður sem ég kýs að kalla "KA-lið vikunnar" þar sem ég mun velja eitthvað KA lið úr sögu félagsins í öllum íþróttagreinum og gera smá skil á því flotta liði sem fyrir valinu verður. Þar sem félagið er ný orðið 85 ára held ég að það eigi vel við að fyrsta lið vikunnar sé...

Fyrsta lið KA! En eins og allir vita var félagið stofnað 1928 af 12 vöskum drengjum sem við í dag kunnum miklar þakkir fyrir. Félagið var upphaflega stofnað sem knattspyrnufélag eins og nafnið gefur til kynna en það tók ekki nema nokkra mánuði þangað að farið var að keppa í frjálsum íþróttum innan félagsins, nánar tiltekið á 17.júní móti 1928.

En okkar fyrsta lið var fótbolta lið skipað 13 ungum mönnum. Liðið lék sinn fyrsta mótsleik í Apríl 1928 á Þórsvellinum gegn Þór og endaði sá leikur með 5-5 jafntefli. Það er kannski frekar kaldhæðnislegt að treyja félagsins var á þessum tíma röndótt rauð og hvít og svo ég vitni í fundargerð af framhaldsstofnfundi félagsins þar sem ákveðið var hvernig búningurinn skyldi líta út.

"Bolur með hvítum og rauðum langröndum, rauðum kraga og rauðum uppslögum á ermum. Buxur bláar með hvítum og rauðum böndum neðst á skálmum og upp skálmarnar að utan verðu" En eins og allir vita eru náttúrulega litirnir í merki félagsins, blár, rauður og hvítur.

Umrætt lið tók fyrst norðlenskra liða þátt í íslandsmóti og gerðist það 1929 en liðið lék einungis 2 leiki þrátt fyrir að liðin væru 6 í deildinni og endaði KA sitt fyrsta íslandsmót í neðsta sæti án stiga eftir töp gegn Val (4-0) og Víking R (3-0) en báðir leikir voru leiknir á gamla Melavellinum.

Hér að neðan er mynd af liðinu frá 1929.
Aftasta röð f.v Tómas Steingrímsson, Jakob Gíslason, Ólafur Magnússon, Jón Sigurgeirsson, Georg Karlsson, Eðvarð Sigurgeirsson, Hermann Stefánsson.
Miðröð: Kjartan Ólafsson, Jónas Jónsson, Kári Hálfdánarson, Barði Brynjólfsson.
Fremstir: Sigurður Jónsson, Einar Björnsson
Mynd: V.Sigurgeirsson
Heimild: Jón Hjaltason, "Saga félagsins í 60 ár - Í máli og myndum"