KA með öruggan sigur á BÍ/Bolungarvík

Fannar Hafsteinsson í sínum fyrsta deildarleik í meistaraflokki fyrir KA á Akureyrarvelli.  Mynd: Þó…
Fannar Hafsteinsson í sínum fyrsta deildarleik í meistaraflokki fyrir KA á Akureyrarvelli. Mynd: Þórir Tryggvason
KA vann öruggan og sanngjarnan sigur á BÍ/Bolungarvík í síðustu umferð 1. deildar karla á Akureyrarvelli í dag - 3-0.

Liðsmenn Guðjóns Þórðarsonar í BÍ/Bolungarvík mættu frískir til leiks og settu mikla pressu á KA-markið fyrstu 10 mínútur leiksins og þá skall í þrígang hurð nærri hælum, en Sandor var vandanum vaxinn í markinu. Eftir þessa byrjun komust KA-menn betur og betur inn í leikinn og færðu liðið framar á völlinn. Þetta bar árangur á 20. mínútu þegar Dan Howell skoraði fínt mark eftir snarpa sókn  og góða stoðsendingu frá Guðmundi Óla.

Staðan því 1-0 í hálfleik og KA með góð tök á leiknum.

Í síðari hálfleik var aldrei spurning um að KA myndi auka forskotið - BÍ/Bolungarvík átti varla eitt einasta færi og allur vindur virtist úr Djúpmönnum. KA gekk á lagið og setti annað mark á 71. mínútu með góðu skoti Davíðs Rúnars Bjarnasonar úr markteignum. Guðmundur Óli Steingrímsson innsiglaði síðan góðan sigur með þriðja markinu tíu mínútum síðar eftir frábæran undirbúning Brians Gilmour.

Fannar Hafsteinsson kom inn á þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og leysti Sandor Matus af í markinu. Gaman að sjá þennan 16 ára gamla stórefnilega markvörð á milli stanganna í sínum fyrstu deildarleik með meistaraflokki KA. Fannar steig engin feilspor og skilaði sínu vel í markinu.

KA lauk keppni að þessu sinni í áttunda sæti deildarinnar með 29. stig - sjö stigum frá ÍR í 9. sæti og einu stigi frá Þrótti R í 6. sæti.