Eftir frábæran fyrri hálfleik voru KA-menn talsvert heppnir að fá eitt stig úr leiknum gegn Fram á laugardaginn, og hefðu jafnvel geta orðið enn heppnari að stela sigrinum í restina.
KA 3-3 Fram
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson 3. mín
2-0 Elfar Árni Aðalsteinsson 35. mín
2-1 Orri Gunnarsson 47. mín
2-2 Brynjar Benediktsson 56. mín
2-3 Orri Gunnarsson 84. mín
3-3 Ævar Ingi Jóhannesson 90. mín
Það verður seint sagt um leik KA og Fram á laugardaginn að hann hafi verið leiðinlegur á að horfa. Sex mörk litu dagsins ljós og það fyrsta eftir aðeins rúmlega tvær mínútur. Þá gaf Elfar Árni glæsilega sendingu inn á Ævar Inga sem að kláraði færið einstaklega vel og KA-menn komnir með forystu. KA-menn réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og uppskáru annað mark á 35. mínútu þegar að Juraj Grizelj skaut aukaspyrnu að marki Fram sem að Elfar Árni stýrði í netið, 2-0. Forysta KA hefði getað verið mun stærri en þar við sat og KA með tveggja marka forystu í hálfleik og ekkert sem benti til annars er öruggs sigurs okkar manna.
Fram mættu grimmir í upphafi seinni hálfleiks og skoruðu mjög snemma og minnkuðu muninn. Þetta mark hafði slævandi áhrif á KA sem að voru ekki sjálfir sér líkir næstu 15 mínúturnar og þökkuðu Fram fyrir sig og jöfnuðu leikinn á 56. mínútu. Eftir það skiptust liðin á að sækja og fengu KA-menn tvö fín færi til þess að taka forystuna á nýjan leik. Í 79. mínútu fá Fram réttilega vítaspyrnu sem að Fannar Hafsteinsson í marki KA gerði sér lítið fyrir og varði. Adam var þó ekki lengi í paradís því aðeins nokkrum mínútum síðar voru Framarar komnir með forystuna þegar að Orri Gunnarsson skoraði laglegt mark eftir slaka hreinsun KA manna úr eigin teig.
KA liðið sýndi gríðarlegan karakter og setti allan sinn kraft í að jafna leikinn. Það tókst á 90. mínútu þegar að Ævar Ingi skallaði boltann í markið af stuttu færi. Minnstu munaði síðan að KA tækist að stela sigrinum í uppbótartíma en hárbreidd munaði að sending Ævars rataði á Ben Everson sem hefði staðið fyrir opnu marki.
3-3 jafntefli er líklega sanngjörn niðurstaða þegar upp er staðið en KA liðið spilaði frábærlega í fyrri hálfleik en fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik voru ekki góðar og hleyptu þeir Fram inn í leikinn með þeirri spilamennsku. Margt jákvætt er hægt að taka út úr leik KA manna og var virkilega gaman að sjá hversu beittir menn eru fram á við og síógnandi að marki andstæðingsins.
Hér má síðan sjá viðtal við Bjarna inn á vef Fótbolta.net
Næsti leikur KA er á laugardaginn gegn Fjarðarbyggð og verður leikurinn að öllum líkindum spilaður á Reyðarfirði innandyra. Við hvetjum alla KA-menn nær og fjær til þess að fjölmenna á leikinn þar. Hann hefst kl. 14:00