Samkvæmt ársreikningi voru rekstrartekjur KA á síðasta ári 181 milljón króna samanborið við 167 milljónir króna árið 2010. Reksturinn samanstendur af knattspyrnu-, handknattleiks-, blak- og júdódeild auk aðalstjórnar. Rekstrargjöld voru 177,6 milljónir króna og hagnaður án fjármunatekna, fjármagnsgjalda og hlutdeildar því 3,6 milljónir. Hlutdeild KA í hagnaði Akureyrar handboltafélags nam 2,4 milljónum króna, en Knattspyrnufélag Akureyrar færir upp 50% hlutdeild í hagnaði Akureyrar handboltafélags þar sem KA ber helmings ábyrgð á skuldbindingum Akureyrar handboltafélags á móti Íþróttafélaginu Þór.
Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjuir á síðasta ári námu 2,3 milljónum króna og því var heildarniðurstaða ársreiknings 3,8 milljóna króna hagnaður. Fram kom í máli Sigríðar Jóhannsdóttur, gjaldkera, á aðalfundinum að rekstur deilda hafi eins og oft áður gengið misjafnlega vel, en að öllu samanlögðu væri rekstur félagsins réttum megin við strikið og það væri það sem að hafi verið stefnt.
Á aðfundum flutti Hrefna G. Torfadóttir, formaður KA eftirfarandi skýrslu:
Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
Það er við hæfi í upphafi þessa fundar að minnast þeirra félaga okkar sem látist hafa frá síðasta aðalfundi. Þeir eru:
Marteinn Friðriksson sem lést 18. apríl;
Snorri Kristjánsson sem lést 26. júní;
Birgir Björnsson sem lést 2. september;
Sigurbjörg Níelsdóttir sem lést 25. september og
Kristján Valdimarsson sem lést 26. september
Allt þetta fólk stuðlaði að því, á einn eða annan hátt, með sínu óeigingjarna starfi að því að gera félagið að því sem það er í dag, sterkt og öflugt félag. Við minnumst þeirra með þakklæti, vinsemd og virðingu.
Á aðalfundi 30. mars 2011 var Hrefna G. Torfadóttir kjörin formaður KA en auk hennar voru kjörin í stjórn:
Sigurbjörn Sveinsson sem varð varaformaður
Sigríður Jóhannsdóttir sem varð gjaldkeri
Sigurður Kjartan Harðarson sem varð ritari
Þorbjörn Guðrúnarson sem varð meðstjórnandi
Varamaður var kjörin Ragnheiður Júlíusdóttir
Formenn deilda sátu einnig í stjórn en þeir
voru:
Gunnar Garðarsson, fyrir blakdeild
Erlingur Kristjánsson, fyrir handknattleiksdeild
Jón Óðinn Waage, fyrir júdódeild
Bjarni Áskelsson, fyrir knattspyrnudeild og á þessu ári tók Gunnar Níelsson
við sem formaður knattspyrnudeildar
Aðalstjórn hélt 16 bókaða fundi frá síðasta aðalfundi, á þriggja vikna fresti, með hléi í júlí og ágúst. Nokkuð var líka um aukafundi sem eru inni í þessari tölu.
Í fjárhagsráði, sem skipað er í af aðalstjórn, sitja Árni Jóhannsson, Eygló Birgisdóttir og Gunnar Kárason. Ég vil þakka fjárhagsráði fyrir störf þeirra.
Í lok október lagði Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri, fram til aðalstjórnar uppsagnarbréf sitt. Gunnar lét af störfum um áramót en kom þó og aðstoðaði við ýmislegt ásamt því að kynna nýjum manni starfið. Við starfi Gunnars tók um síðustu mánaðamót, Sævar Pétursson. Frá áramótum og þar til Sævar tók við gegndi Óskar Þór Halldórsson stöðu framkvæmdastjóra.
Aðalstjórn þakkar Gunnari fyrir vel unnin störf og trúmennsku síðastliðin 12 ár og þakkar einnig Óskari Þór fyrir að hlaupa í skarðið ásamt með sínu starfi sem framkvæmdastóri knattspyrnudeildar.
Einnig bjóðum við Sævar Pétursson hjartanlega velkominn til starfa.
Síðastliðið sumar var leikjaskóli starfræktur eins og undanfarin ár. Hann var með sama sniði og sl. sumar, einungis var boðið upp á skólann hálfan daginn. Umsjónarmaður skólans var Jón Óðinn Waage. Skólastarfið tókst mjög vel undir dyggri umsjón Jóns Óðins.
Eins og fyrr ákváðum við að halda gjöldum í lágmarki og tókst það vegna veglegs styrks frá Samherja og var aðsókn að skólanum mjög góð. KA þakkar Samherja fyrir velvild þess í garð félagsins.
Haldið var áfram þeirri hefð sem skapaðist á árinu 2010 að halda tvisvar á ári fundi með stjórnum, ráðum og þjálfurum deilda. Þessir fundir eru bæði skemmtilegir og nauðsynlegir. Auk þess sem formenn deilda og ráða segja frá starfi sinnar deildar þá ræða fundarmenn saman um ýmis málefni félagsins. Mjög notaleg stemning er á þessum fundum.
Sú hefð hefur komist á að borða dýrindis plokkfisk og rúgbrauð á þessum fundum og hef ég ekki annað séð en að fundarmenn þar taki hraustlega til matar síns.
Á síðasta slíkum fundi, sem haldinn var í þessum mánuði, kynnti Egill Ármann Kristinsson, áhugasamur og duglegur KA-maður, hugmyndir sínar að félagsstarfi innan KA. Hann hafði áður kynnt þessar hugmyndir fyrir aðalstjórn og í kjölfarið drifið í því að stofna ungmennaklúbb innan félagsins. Góður rómur var á fundinum gerður að hugmyndum Egils.
Konukvöld var haldið eins og síðastliðið ár og tókst það mjög vel og í byrjun mars var einnig haldið Karlakvöld eftir þó nokkurra ára hlé og hef ég fregnað að það hafi einnig tekist mjög vel.
Ein af hugmyndum Egils var að hér yrði stofnaður klúbbur eldri félaga, þeirra sem e.t.v. eru hættir að vinna og vildu koma saman hér að degi til; koma t.d. og fá sér kaffi ákveðna seinniparta eða morgna og spjalla saman. Þessi hugmynd hlaut einnig góðar undirtektir og ef það eru einhverjir hér á fundinum sem hafa áhuga á að koma að slíkum klúbbi endilega að láta okkur vita.
Síðasliðið sumar var byrjað á framkvæmdum við uppsetningu nýs gólfs og nýrra áhorfendabekkja í íþróttasal KA og lauk þeim framkvæmdum á haustmánuðum. Það var svo sannarlega orðið tímabært að fá nýtt gólf og vona ég að þetta nýja gólf fari mun betur með iðkendur en hið gamla gerði.
Veturinn 2010 – 2011 var KA-svæðinu mjög erfiður og kom í ljós þegar snjóa og klaka leysti að það var mjög kalið, svo mjög að vellir voru meira og minna ónothæfir. Með dugnaði og árvekni Gunnars framkvæmdastjóra og starfsfólks hér tókst að bjarga svæðinu þannig að það leit orðið nokkuð vel út síðsumars. Sótt var um aukaframlag til bæjarins vegna aukakostnaðar við áburð og annað sem setja þurfti á vellina, og nam þessi kostnaður um einni milljón króna, og samþykkti bærinn að veita okkur aukaframlag vegna þessa.
Formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar áttu nokkra fundi með fulltrúum bæjarins og íþróttaráðs um uppbyggingarsamning félagsins. Í þeim viðræðum bar gervigras á KA-svæði einna hæst og hefur verið ákveðið að gervigras verði komið á völlinn hér sunnan við hús í maí 2013.
Varðandi framkvæmdir á aðalvelli, Akureyrarvelli, þá var unnið við stúkuna að innan en að utanverðu vantar sæti. Akureyrarbær staðfesti í liðinni viku pöntun á um 700 sætum í stúku Akureyrarvallar. Sætin ættu að vera komin til landsins innan sex vikna og verður þá hafist handa við að setja þau upp.
KA hefur tekið að sér að rífa burtu bekkina úr stúkunni og síðan munu
Fasteignir Akureyrarbæjar undirbúa niðursetningu sætanna.
Þessi fjöldi sæta uppfyllir kröfur leyfiskerfis KSÍ um bæði 1. deild og efstu deild karla í knattspyrnu.
Þá var síðasta sumar lokið við að þökuleggja hlaupabrautina og nú á bara eftir að þökuleggja sunnan við syðra markið.
Við erum enn í viðræðum við fulltrúa bæjarins og íþróttaráðs og vonir standa til að innan skamms muni samningur um uppbyggingu svæðis okkar liggja á borðinu.Við viljum þakka Akureyrarbæ og íþróttaráði fyrir gott samstarf.
Á haustmánuðum áttum við góðan fund með hverfisnefnd Naustahverfis um uppbyggingu íþrótta í hverfinu. Við munum koma að viðræðum við bæinn bæði með hugsanlegt bráðabirgðasvæði og svo einnig varanlegt svæði fyrir KA í Naustahverfi.
Fyrir liggur að taka upp viðræður við Akureyrarbæ um rekstrarsamning okkar en núgildandi samningur rennur út í lok þessa árs. Eins og ég sagði frá á síðasta aðalfundi þá ákvað þáverandi bæjarstjórn í desember 2008 að hætta að greiða samningsbundna vísitölu sem átti að koma til greiðslu í janúar 2009. Þessi vísitölusamningur er í rekstrarsamningi félaganna.
Við höfum því verið að reka félagið á sömu krónutölu í rekstrarstyrk frá árinu 2008. Þetta hefur m.a. leitt til þess að við erum undirmönnuð hér í húsinu og höfum verið það síðastliðin þrjú og hálft ár. Þetta kemur auðvitað niður á gæðum þjónustunnar hér. Það er alveg ljóst að við þurfum að fá þannig samning að við getum rekið heimilið hér með viðunandi hætti.
Ég hef einnig sagt frá því áður að KA hefur einungis verið með 9 mánaða samning sem deilt var niður á 12 mánuði, í stað 12 mánaða samnings eins og sambærileg félög hafa haft. Ég tók þetta mál upp við bæjarstjóra og fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn haustið 2010 og áréttaði það frekar á síðasta ári að þessu þyrfti að breyta og nú í febrúar 2012 fengum við leiðréttingu fyrir árið 2012. Þetta verður síðan tekið upp aftur þegar við setjumst niður til að ræða nýjan rekstrarsamning.
Aðalstjórn og stjórn Tennis- og badminton félagsins funduðu á síðasta ári og byrjun þessa og útkoman af þessum fundum var bréf frá Tennis- og badmintonfélaginu sem lagt verður fyrir aðalfund nú á eftir þar sem TBA óskar eftir því að verða ein af deildum KA. Aðalstjórn KA sem tók bréfið fyrir á fundi sínum 22. mars og lýsir yfir stuðningi við erindi TBA og vísar erindinu til afgreiðslu aðalfundar.
Í desember síðastliðnum tilkynnti Samherji um veglegan styrk til barna- og unglingastarfs KA auk styrkja til meistaraflokka félagsins. Ég vil þakka Samherja innilega fyrir höfðingskap þeirra og hlýhug í okkar garð.
Sunnudaginn 8. janúar síðastliðinn, á afmælisdegi KA, var haldið upp á 84 ára afmæli félagsins. Þar var látinna félaga minnst, fluttur annáll síðasta árs, sr. Hildur Eir Bolladóttir flutti ræðu, Gunnar framkvæmdastjóri var formlega kvaddur, tilkynnt var um úthlutanir úr Jakobssjóði og síðast en ekki síst var íþróttamaður KA tilnefndur.
Í kjöri til íþróttamanns KA árið 2011 voru:
Frá blakdeild. Filip Pawel Szewczyk
Frá handknattleiksdeild. Martha Hermannsdóttir
Frá júdódeild: Helga Hansdóttir
Frá knattspyrnudeild: Haukur Heiðar Hauksson
Íþróttamaður KA árið 2011 var kjörinn Helga Hansdóttir,
júdókona.
Að þessu loknu var gengið að svignandi tertuborði að hætti KA. Þess má geta hér að um 100 manns mættu í afmælið.
Á aðalstjórnarfundi tveimur vikum eftir afmælið var einn liðurinn á dagskránni sem ég sendi aðalstjórn í tölvupósti, afmæli 2013. Aðalstjórnarmenn héldu að nú hefði ég heldur ruglast í ríminu og hefði ætlað mér að ræða um nýliðið afmæli 2012. En það var aldeilis ekki því ekki er ráð nema í tíma sé tekið og við verðum 85 ára 8. janúar 2013. Það er því búið að skipa afmælisnefnd fyrir 85 ára afmælið.
Ég vil þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem gera okkur öllum kleyft að reka öflugt og sterkt íþróttafélag. Án svona sjálfboðaliða eins og við eigum gengi starfið ekki. Kærar þakkir til ykkar allra.
Ég vil einnig þakka starfsfólki hússins fyrir þeirra störf en þau eru:Jón Albert Pásson, Hafdís Harðardóttir og Erlendur Haraldsson sem hætti störfum í lok nóvember og í hans stað kemur Eðvarð Eðvarðsson
Hér verður ekki fjallað um árangur flokka né rekstur deilda og vísast í ársskýrslur hverrar deildar sem koma inn á heimasíðu félagsins.
Félagsstarfið hjá félagi eins og okkar skiptir gríðarlega miklu máli. Við höfum undanfarin tvö ár verið að vinna í því að efla það og styrkja. Eflaust finnst einhverjum það ganga hægt en ég segi að félagið erum við sjálf og ef við viljum sjá öflugt félagslíf hér verðum við að leggja eitthvað af mörkum sjálf. Það er ekki bara mál aðalstjórnar eða stjórna deilda að standa að öflugu félagslífi heldur mál okkar allra.
Takk fyrir
Fyrir hönd aðalstjórnar KA
Hrefna G. Torfadóttir
formaður KA