KA sigraði Fjölni og er komið í undanúrslit Borgunarbikarsins

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Það var frábærlega vel mætt á leik KA og Fjölnis í kvöld á Akureyrarvelli og urðu áhorfendur ekki fyrir vonbrigðum, nema kannski þeir sem mættu of seint á völlinn. KA skoraði tvö mörk á fyrstu tíu mínútum leiksins og dugðu þau til sigurs. KA er því komið í undanúrslit Borgunarbikarsins, í fyrsta sinn síðan 2004.

KA 2-1 Fjölnir
1-0 Davíð Rúnar Bjarnason 7. mín
2-0 Ævar Ingi Jóhannesson 9. mín
2-1 Mark Charles Mcgee 53. mín

Leikurinn var aðeins sjö mínútna gamall þegar að Jóhann Helgason gaf háann bolta inn á teig gestanna, sem þeim mistókst að hreinsa og boltinn datt fyrir Davíð Rúnar Bjarnason sem skilaði honum framhjá Þórð Ingasyni, markverði Fjölnis. Áhorfendur voru varla sestir þegar að Ævar Ingi Jóhannesson slapp einn í gegnum vörn Fjölnis og setti boltann yfir Þórð í markinu. Tvö núll eftir aðeins 9 mínútur og staða heimamanna vænleg.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta. Fjölnismenn voru meira með boltann, án þess þó að skapa sér hættulegt færi en KA beitti góðum skyndisóknum og fengu tvö dauðafæri til þess að auka muninn. Fyrst var það Juraj Grizelj sem var við það að komast einn í gegn en góður varnarleikur Fjölnis varð til þess að Juraj kom ekki skoti á markið og þá fékk Ben Everson einnig ágætt færi þegar hann og Juraj voru komnir tveir gegn einum varnarmanni Fjölnis en náðu þó ekki að gera mat úr því.

Fjölnismenn mættu gríðarlega einbeittir til seinni hálfleiks og settu þunga pressu á KA-menn. Þeir uppskáru mark á 53. mínútu þegar að Charles Mcgee skoraði með hnitmiðuðu skoti framhjá Rajko í markinu. Við þetta efldust KA menn og fékk Juraj Grizelj upplagt marktækifæri eftir frábært spil KA-manna en boltinn fór rétt framhjá. Fjölnismenn lögðu allt í sölurnar í restina til þess að jafna leikinn en KA-menn voru gríðarlega þéttir til baka og gáfu ekki eitt færi á sér.

Sanngjarn sigur KA-manna staðreynd og fögnuður áhorfenda og leikmanna í leikslok ósvikinn. Það er ljóst að með þessari spilamennsku er KA allir vegir færir í deildinni en næsti heimaleikur liðsins er gegn erkifjendunum í Þór á laugardaginn kemur. Hinsvegar er dregið í bikarnum á morgun og ásamt KA eru KR, Valur og ÍBV í pottinum.