KA sigraði grannaslaginn

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Mynd: Skapti Hallgrímsson

Það var ekta fótboltaveður þegar að Gunnar Sverrir Gunnarsson flautaði til leiks á slaginu 17:00 í dag. Því miður fyrir þá sem komu of seint á völlinn misstu þeir af eina marki leiksins, sem kom eftir rúmlega fjögurra mínútna leik. 1-0 sanngjarn sigur KA staðreynd.

KA 1-0 Þór
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson 5.
mín
Rautt Spjald: Sandor Matus 16. mín (Þór)

Fólk var ekki hvatt af ástæðulausu til þess að mæta snemma á völlinn í dag enda voru heimamenn í KA, vel studdir af fjölmörgum áhorfendum, komnir yfir eftir aðeins fimm mínútur. Þar var að verki Marka-Ævar sem skoraði eftir að hafa komist einn gegn Sandori í marki Þórs. KA menn mættu gríðarlega einbeittir til leiks, þrátt fyrir að stór skörð hafi verið höggvin í liðið að undanförnu. Á 16. mínútu slapp Elfar Árni Aðalsteinsson einn í gegn kom boltanum framhjá Sandori í marki Þórs sem síðan braut á Elfari, utan teigs. Rautt spjald réttilega dæmt og KA-menn í góðri stöðu. KA gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að bæta við marki í fyrri hálfleik en allt kom fyrir ekki!

Í síðari hálfleik voru það gestirnir úr Þorpinu sem léku betur. Þeir fengu þó eitt opið færi þegar að Sveinn Elías Jónsson slapp einn í gegn en Rajko varði glæsilega. KA menn féllu töluvert til baka í síðari hálfleik og reyndu að halda fengnum hlut. Þórsarar gengu á lagið, en án þess þó að gera harðar atlögur að marki heimamanna. Lokatölur 1-0 fyrir KA og með sigrinum er liðið komið í 4. sæti deildarinnar en Þór er í því fimmta.

Bestu leikmenn vallarins í dag voru þeir Callum Williams og Ævar Ingi Jóhannesson. Callum steig ekki feilspor í vörn KA og það skapaðist alltaf hætta þegar að Ævar sótti upp völlinn.

Það sem KA tekur jákvætt út úr þessum leik er að hafa fengið stigin þrjú, þrátt fyrir pressu gestanna í síðari hálfleik og auðvitað montréttinn fram í september. Nú er það næsti leikur, gegn gulklæddum Grindvíkingum, í Grindavík, á þriðjudaginn.