KA sigraði KF og Völsung í æfingaleikjum

Þann 28. nóvember síðastliðin lék KA gegn KF í Boganum. KA vann leikinn 3-0 en KA gerði 8 skiptingar í hálfleik, og lék þar af leiðandi nánast á tveimur mismunandi liðum.

Í fyrri hálfleik var töluvert jafnræði með liðunum en KA leiddi þó 1-0 í hálfleik. Mark KA skoraði Kristján Freyr Óðinsson eftir aukaspyrnu utan af kanti, sem Bjarni Mark tók.
Í síðari hálfleik höfðu KA-menn mikla yfirburði og skoruðu tvö mörk og fengu urmul af færum. Mörk KA skoruðu Baldvin Ólafsson og Ívar Árnason

Nú á sunnudaginn lék KA svo gegn Völsungi. Þar vann KA 4-1 sigur en þar gerðu KA-menn færri skiptingar og spiluðu meira á sama liðinu. KA var töluvert sterkari aðilinn. Fyrsta mark KA skoraði Pétur Heiðar Kristjánsson eftir stoðsendingu frá Baldvin Ólafssyni. KA tvöfaldaði forystuna þegar Húsvíkingurinn Elfar Árni skoraði. Völsungar minnkuðu muninn þegar Jóhann Þórhallsson skoraði eftir mistök í KA-liðinu. KA bætti við forystuna, 3-1 þegar að Elfar skoraði úr víti eftir að Hallgrímur Mar var felldur inn í teig. Fjórða mark KA skoraði síðan Ívar Sigurbjörnsson með hnitmiðuðu þrumuskoti rétt fyrir utan teig, upp í bláhornið fjær. Lokatölur 4-1.

KA leikur gegn Dalvík á morgun, miðvikudag kl. 20:00 í Boganum og síðan gegn Magna á laugardaginn kemur kl. 15:00 í Boganum.