KA og Selfoss áttust við á KA velli á laugardaginn í Lengjubikar karla. KA vann leikinn 2-1 en Selfoss hafði leitt bróðurpart leiksins eftir að þeir komust yfir á þriðju mínútu. KA gerði síðan tvö mörk undir lok leiksins og tryggði stigin þrjú.
Leikurinn var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Selfyssingar fá aukaspyrnu út við vítateigshornið sem þeir gefa inní og eftir nokkuð klafs komast gestirnir í boltann og endar hann í netinu, 0-1.
KA var mun sterkari aðilinn í leiknum, án þess þó að skapa sér nein dauðafæri. Það var ekki fyrr en undir lok leiksins sem að Ásgeir Sigurgeirsson fékk dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var á honum innan teigs. Elfar Árni Aðalsteinsson tók vítið og skoraði af miklu öryggi, 1-1. Það var svo á fjórðu mínútu uppbótartímans sem að KA fékk hornspyrnu eftir þunga sókn og kom boltinn á nærstöngina og flikkaði Ásgeir honum í netið og KA-sigur staðreynd, 2-1.