Það var gríðarlega vel mætt í Bogann þetta fallega júlíkvöld þar sem leikur KA og Þór fór fram. Þórsarar hófu leikinn af miklum krafti og voru líklegri framan af en þeim tókst ekki að koma boltanum framhjá besta manni KA í leiknum, Aroni Inga Rúnarssyni.
Eftir fyrstu 20 mínúturnar jafnaðist leikurinn enn án þess þó að teljast skemmtilegur enda boltinn mikið úr leik, sökum lofthæðar Bogans og þeirri staðreynd að menn eru vanari að leika úti svona yfir hásumarið.
KA-liðið kom gríðarlega einbeitt til seinni hálfleiks og léku við hvurn sinn fingur. Fyrsta markið kom þegar tæpar 20 mínútur voru eftir en þá skoraði Úlfar Valsson með skalla eftir aukaspyrnu Atla Fannars. Þrátt fyrir að vera marki yfir voru KA líklegri til þess að bæta við en Þórsarar að jafna og það gerðist einmitt þegar Atli Fannar Írisarson skoraði eftir glæsilegan einleik Sveins Helga Karlssonar upp hægri kantinn.
Þórsarar settu meiri kraft í sóknarleikinn við þetta og uppskáru vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Aron Ingi gerði vel og varði spyrnu Fannars Malmquist. Lokatölur 2-0 fyrir KA sem fögnuðu innilega sigrinum.
KA liðið lék mjög vel í dag en liðið er í 2. sæti B-deildarinnar með 20 stig eftir 9 leiki. Þór er í fjórða sæti með 13 stig.