KA/Þór lagði land undir fót í gær og lék gegn sterku liði Hauka í Hafnarfirði. Haukastúlkur eru að berjast við toppinn í deildinni en KA/Þór er á hinum enda deildarinnar.
Eftir jafnan fyrri hálfleik skildi á milli liðanna og náðu Haukastúlkur mest 10 marka forystu. KA/Þór náði örlítið að klóra í bakkann fyrir leikslok og enduðu leikar 29-20 fyrir Haukum. Markahæst hjá KA/Þór var Erla Hleiður Tryggvadóttir með 5 mörk en næstar á eftir henni komu þær Birta Fönn Sveinsdóttir og Þórunn Sigurbjörnsdóttir með fjögur mörk hvor.
Á laugardaginn taka svo stelpurnar á móti nýliðum Fjölnis á heimavelli í KA-heimilinu. Sá leikur hefst kl. 15:00 og er gríðarlega þýðingarmikill. Stelpurnar eru enn að leita af sínum fyrsta sigri en Fjölnir hefur 8 stig í 8. sæti deildarinnar.
Frítt er á völlinn og hvetjum við alla til þess að koma og styðja við stelpurnar.