KA - Þór - úrslitaleikur í Kjarnafæðismótinu föstudaginn 8. febrúar kl. 20

Næstkomandi föstudagskvöld, 8. febrúar, kl. 20 verður spilaður úrslitaleikur í Kjarnafæðismótinu í knattspyrnu. Þar mætast stálin stinn; KA og Þór. Bæði lið hafa unnið alla fimm leiki sína í mótinu og eru með 15 stig. KA er með einu marki betri markatölu 25:4 á móti 22:2 hjá Þór. Það er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að mæta í Bogann og sjá alvöru nágrannaslag - að öllum líkindum verða þeir ekki fleiri í ár af þeirri einföldu ástæðu að liðin eru í sitthvorri deildinni næsta sumar - nema að þau dragist mögulega saman í bikarkeppninni.

En þetta er raunar ekki eini nágrannaslagurinn um helgina. Næstkomandi sunnudag kl. 15.15 mætast í Boganum í Kjarnafæðismótinu KA 2 og Þór 2 - en bæði lið eru að uppistöðu mönnuð strákum úr 2. flokki félaganna. Öruggt má telja að ekki verður minna gefið eftir í þessum leik en í leik A-liðanna á föstudagskvöld. Þessi lið verma tvö neðstu sætin í mótinu - KA 2 er með 3 stig en Þór 2 er með 1 stig.