Knattspyrnudeild KA samdi í dag við þrjá leikmenn; Brian Thomas Gilmour, Mads Rosenberg og Steinþór Már Auðunsson.
Miðjumaðurinn Brian Thomas Gilmour er Skoti, fæddur árið 1987. Hann kom fyrst til KA í júlí 2011 og spilaði þá með liðinu út keppnistímabilið. Hann spilaði síðan aftur með KA sl. keppnistímabil og er því orðinn hagvanur í gulu og bláu.
Daninn Mads Rosenberg er fæddur árið 1986. Hann er varnarmaður og hefur jöfnum höndum spilað sem miðvörður, djúpur miðjumaður eða bakvörður. Hann kemur frá Árósum en hefur síðasta hálft annað ár spilað með 1. deildarliði FC Hjörring.
„Ég kem til KA fyrst og fremst til þess að prófa eitthvað nýtt í fótboltanum. Ég spilaði með Hjörring fram í nóvember á liðnu ári, en hafði áhuga á því að prófa eitthvað nýtt. Þegar mér síðan bauðst að koma til KA á reynslu í janúar ákvað ég að slá til og það er mér ánægjuefni að hafa samið við félagið. Ég er ánægður með það sem ég hef þegar upplifað. Allir í klúbbnum hafa tekið mér vel og mér finnst vel staðið að öllu í kringum hann. Ég mun leggja mig fram og vonandi fæ ég tækifæri til þess að spila mikið fyrir KA á næstu átta mánuðum,“ segir Mads Rosenberg.
Steinþór Már Auðunsson er markmaður, fæddur árið 1990. Hann er uppalinn í KA og spilaði með félaginu upp alla yngri flokka. Að loknum 2. flokki lá leið hans til Völsungs á Húsavík, þar sem hann spilaði í hálft annað ár. Hann skipti yfir í Dalvík um mitt sumar 2011 og sl. sumar stóð hann sömuleiðis milli stanganna í marki Dalvíkinga.
„Mér finnst vera spennandi tímar framundan í KA og það er ekki verra að finna að þjálfararnir hafa trú á manni. Mér líst mjög vel á það sem er að verið að gera núna hjá félaginu og ég hlakka til þess að takast á við verkefnin framundan,“ segir Steinþór Már Auðunsson.
Á meðfylgjandi mynd eru fjórir leikmenn í KA-treyjunni ásamt Bjarna þjálfara. Frá vinstri: Enski bakvörðurinn, Darren Lough, sem KA samdi við í nóvember sl. og kom aftur til Akureyrar í síðustu viku, en hann spilaði einnig með félaginu sl. sumar, Steinþór Már Auðunsson, Mads Rosenberg, Brian Gilmour og Bjarni Jóhannsson.