Á dögunum voru birtar niðurstöður verðkönnunar Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands á æfingagjöldum sextán íþróttafélaga fyrir knattspyrnu í annars vegar 6. flokki og hins vegar 4. flokki núna á vorönn og er miðað við fimm mánaða tímabil. Það kemur í ljós og er okkur í Knattspyrnufélagi Akureyrar mikið ánægjuefni að æfingagjöld hjá okkur eru þau lægstu á landinu, samkvæmt þessari könnun Verðlagseftirlits ASÍ.
Fyrirkomulag knattspyrnu í KA er með þeim hætti að yngriflokkaráð knattspyrnudeildar annast yfirstjórn knattspyrnu í öllum flokkum frá 8. flokki og upp í 3. flokk karla og kvenna. Stjórn knattspyrnudeildar hefur síðan yfirumsjón með rekstri meistaraflokks og 2. flokks karla. Yngriflokkaráð í samráði við yfirþjálfara annast ráðningar þjálfara og er lögð mikil áhersla á að fá reynslumikla og vel menntaða þjálfara til starfa. Sú stefna var mörkuð hjá KA fyrir nokkrum árum að leggja aukna áherslu á þjálfunarþáttinn og styrkja þjálfara til þess að afla sér góðrar menntunar, eins og leyfiskerfi KSÍ kveður á um. Þetta hefur borið ríkulegan ávöxt og nú er svo komið að bróðurpartur þjálfara hjá félaginu er með þjálfaramenntun og margir þeirra hafa að baki mun meiri menntun í þjálfunarfræðum en krafist er við þjálfun barna og unglinga í knattspyrnu.
Lykillinn að góðu og farsælu starfi í þjálfun barna og unglinga er gott samstarf yngriflokkaráðs við þjálfara, foreldra og forráðamenn iðkenda. Við viljum og höfum haft að leiðarljósi að starfa faglega og gott og ábyrgt starf hefur líka skilað því að fyrirtæki á Akureyri hafa verið fús til að leggja starfinu lið með ýmsum hætti. Fyrir það erum við afar þakklát og metum mikils og sýnir þetta líka mikilvægi þess að hér í Eyjafirði starfi öflug og vel rekin fyrirtæki sem hafa getu til að styðja barna- og unglingastarf hér á svæðinu. Þá skiptir það líka gríðarlega miklu máli að forráðamenn iðkenda eru alltaf tilbúnir til þess að leggja starfinu lið í sjálfboðaliðastarfi ef eftir því er leitað. Þegar allir leggjast á eitt verður heildin sterk.
Að sjálfsögðu hefur góð aðstaða til æfinga einnig mikið að segja. Bætt æfingaaðstaða með tilkomu Bogans á sínum tíma hefur nú þegar skilað tæknilega betri knattspyrnumönnum á Akureyri og nýi gervigrasvöllurinn fyrir sunnan KA-heimilið, sem var tekinn í notkun vorið 2013, hefur strax sannað gildi sitt. Æfingin skapar meistarann og góður gervigrasvöllur úti hefur gert það að verkum að nú er unnt að lengja verulega æfingatímabilið utan dyra á Akureyri. Þetta skiptir miklu máli fyrir uppbyggingu knattspyrnunnar í bænum til lengri tíma litið.
Markvisst og metnaðarfullt yngriflokkastarf í knattspyrnunni í KA undanfarin ár skilaði því á síðasta ári að félagið hefur aldrei áður átt jafn marga landsliðsmenn í yngri flokkum í knattspyrnu.
Þrátt fyrir að við gerum miklar gæðakröfur til okkar starfs gætum við ábyrgðar og aðhalds í okkar rekstri. Við miðum æfingagjöld við þann kostnað sem við þurfum að standa straum af, sem er fyrst og fremst launagreiðslur til þjálfara. Það er okkur keppikefli að iðkendur geti stundað knattspyrnu í okkar félagi óháð efnahag foreldra eða forráðamanna.
Yngriflokkaráði KA í knattspyrnu
7. febrúar 2014