Maggi Siguróla og Stebbi Jó hlutu heiðursviðurkenningu ÍBA

Magnús Sigurður Sigurólason og Stefán Jóhannsson hlutu heiðursviðurkenningu ÍBA fyrir framlag sitt til KA á Íþróttahátíð Akureyrar á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi.

Magnús Sigurður Sigurólason, eða Maggi Siguróla eins og hann er oft kallaður, hefur alið manninn alla sína ævi hjá KA. Fyrst sem leikmaður en hann sá fljótlega að kröftum hans væri betur varið að aðstoða sitt ástkæra félag við hin ýmsu störf.

Maggi var lengi formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar KA og voru þau mörg störfin sem hann innti að hendi í þá daga sem formaður þessa þýðingamikla starfs fyrir félagið. Sem dæmi um störf sem formaður unglingaráðs í þá daga þurfti að sinna var m.a. að rukka æfingagjöld, raða niður æfingatöflum, halda foreldrafundi, skipuleggja keppnisferðir, ráða þjálfara, kaupa bolta og vesti og svo framvegis.

Samhliða því að vera formaður unglingaráðs til fjölda ára þá sat hann í mótsstjórn N1-mótsins og stýrði því móti í tugi ára ásamt Gunnari Gunnarssyni og mörgum öðrum góðum mönnum og konum. Mótið hefur haft gríðarlega þýðingu fyrir félagið og bæinn okkar, ásamt öllum þeim ungu iðkendum sem hafa keppt á mótinu. Mótið óx töluvert undir hans stjórn og fór gott orð af mótinu og því hlýlega viðmóti sem fylgdi því að koma inn í KA heimili og hitta á mótstjórnina.

Magnús hefur setið í fullt af stjórnum hjá KA en ber þar helst að nefna fyrir utan barna- og unglingaráðið að hann sat mörg ár í stjórn knattspyrnudeildar og stjórn Jakobssjóðs fyrir félagið.

Á síðari árum hefur sjálfboðaliðastarf Magnúsar færst yfir í það að segja aldrei nei þegar félagið biður hann um eitthvað, hvort sem það er að mála félagsheimilið eða stilla upp matsal fyrir N1mótið. Hann hefur komið að rekstri kjallaraklúbbsins hjá félaginu sem er gríðarlega mikilvægur hluti í félagsstarfinu okkar ásamt því að dæma fjöldan allann af leikjum í knattspyrnu og stýra OldBoys starfinu í knattspyrnu. Svo fer varla fram sá handboltaleikur hjá félaginu þar sem Magnús er ekki ekki á klukkunni en það er gríðarlega óeigngjarnt sjálfboðaliðastarf sem hann sinnir þar.

Maggi Siguróla er KA-maður út í gegn og hefur sennilega aldrei sagt nei þegar félagið hefur beðið hann um aðstoð.

Stefán Jóhannsson kemur úr mikilli KA fjölskyldu og hefur frá unga aldri verið viðloðinn félagið. Stefán lék handknattleik upp yngriflokka félagsins og lék með meistaraflokk KA áður en hann hélt suður til náms.

Á undanförnum áratugum hefur Stefán verið gríðarlega virkur sjálfboðaliði í starfi KA. Stefán ber stórt KA hjarta og mætir á alla heimaleiki félagsins í handbolta, fótbolta og blaki og það hjá bæði karla- og kvennaliðum félagsins. Þegar leitað er til hans er hann ávallt klár að leggja sitt á vogarskálarnar og gott betur en það.

Hann var stjórnarmaður í stjórn Akureyrar Handboltafélags sem starfrækt var á árunum 2006-2017 auk þess að vinna lykilstarf í kynningarmálum félagsins og umgjörð á heimaleikjum en Akureyrarliðið fékk ítrekað verðlaun fyrir bestu umgjörð í efstu deild handboltans.

Stefán er mikill hugsuður og leitast iðulega eftir því að finna lausnir til að bæta starf KA og á sama tíma einfalda þá miklu vinnu sem vinna þarf í kringum starf félagsins. Stefán hefur til að mynda unnið mikið starf í kringum mótakerfi yngriflokka, gagnagrunna fyrir heimasíðu félagsins, mótaklukkur fyrir yngriflokkamót, textalýsingakerfi frá leikjum KA og svo mætti lengi halda áfram.

Þá skipar hann lykilhlutverk í KA-TV þar sem grafíks- og tölfræðikerfi sem Stefán hannaði skipar stóran sess í metnaðarfullum útsendingum. KA-TV hefur undanfarinn áratug sent út ótrúlegt magn af útsendingum frá fjölbreyttu starfi KA, jafnt frá íþróttum barna og meistaraflokka, og eru ekki margar útsendingar þar sem Stefán er ekki á staðnum til að halda utan um hlutina.

Stefán er svo sannarlega ómissandi hluti í hinu mikla starfi KA og hefur hann leitast að því að koma umgjörð félagsins í efsta sætið og gera starfið eins sýnilegt og hægt er. Sjálfur er hann ekki mikið fyrir sviðsljósið en er gríðarlega ósérhlífinn og lifir svo sannarlega fyrir félagið sitt. Stefán hlaut gullmerki KA á 90 ára afmæli félagsins árið 2018.