Magnús Björnsson formaður KA 1951-1952 lést á Akureyri þann 5. maí s.l. 96 ára að aldri. Magnús var mikill íþróttamaður og lagði stund á margar íþróttagreinar. Hann keppti m.a. í frjálsum íþróttum, fimleikum og handknattleik fyrir hönd KA. Magnús var auk þessa virkur í starfi KA um áratuga skeið sem stjórnarmaður auk þess að vera ætíð harður stuðningsmaður félagsins. Á meðan heilsan leyfði kom Magnús á fagnaði KA og tók þátt í, með fyrrverandi formönnum félagsins, að veita ungu íþróttafólki félagsins viðurkenningar fyrir iðkun og árangur í starfi þess.
Magnús var afskaplega traustur og ljúfur maður með blik í auga. KA þakkar Magnúsi fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og samfylgdina sem varað hefur frá stofnári félagsins 1928.
Genginn er góður drengur og traustur félagi. Hans verður sárt saknað.
Blessuð sé minning hans.
Fyrir hönd Knattspyrnufélags Akureyrar sendum við eftirlifandi eiginkonu Magnúsar, Þórunni Sigurbjörnsdóttur, börnum hans og fjölskyldum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA