Stelpurnar í KA/Þór héldu suður í hádeginu í gær, þriðjudag, en þá var leikin heil umferð í Olís-deild kvenna í handbolta. Að þessu sinni áttu stelpurnar leik í Mosfellsbæ við Aftureldingu. Eins og vonandi flestir muna þá lék KA/Þór við lið Aftureldingar fyrir framan fullt hús í öðrum leik tímabilsins í haust í KA-heimilinu þar sem KA/Þór fór með sigur 31-23. Nú var því kominn tími á fyrsta sigurinn hjá liðinu á útivelli og var liðið vel gírað í leikinn.
Fyrri hálfleikur fór hægt af stað hjá báðum liðum en KA/Þór var með forustu lengst af. Varnarleikurinn var mjög fínn hjá liðinu og gekk Aftureldingu erfiðlega að skora en þó var Hekla Daðadóttir erfiður ljár í þúfu fyrir vörn KA/Þórs, en hún skoraði alls 10 mörk í leiknum. Sóknarleikurinn var þó ekki uppá marga fiska hjá norðanstúlkum og virtist eins og þær ætluðu að gera hlutina á hálfum hraða og gekk það erfiðlega. Það fór svo að þegar hálfleiksflautan gall hafði heimaliðið náð eins marks forskoti og leiddi því 11-10 í hálfleik.
Í hálfleik var stelpunum lesið stykkið og þær náðu að gíra sig vel upp fyrir síðari hálfleikinn og áður en langt var liðið af honum var KA/Þór komið yfir 13-15 og nær komst Afturelding ekki. Lið KA/Þórs virkaði eins og smurð vél og jók forskotið jafnt og þétt út hálfleikinn og sigraði á endanum leikinn með sjö marka mun 21-28 og fyrsti útisigurinn kominn í hús.
Mörk KA/Þórs skoruðu: Martha Hermannsdóttir 10, Katrín Vilhjálmsdóttir 8, Birta Fönn Sveinsdóttir 6, Erla Hleiður Tryggvadóttir 2, Erna Davíðsdóttir 1 og Sigríður Höskuldsdóttir 1.
Laugardaginn 25. janúar verður svo sannkölluð handboltaveisla í KA-heimilinu en þá taka stelpurnar í KA/Þór á móti Gróttu kl. 16:15 og kl. 18:15 mætir Stjarnan í heimsókn og spilar við strákana í Hömrunum.