Mikið fjör á Greifamóti KA í Boganum

Líf og fjör á Greifamóti KA í dag.
Líf og fjör á Greifamóti KA í dag.

Mikið fjör var á Greifamóti KA fyrir yngstu krakkana í Boganum í dag. Á fjórða hundrað krakkar skemmtu sér þar konunglega við að elta og sparka í bolta og gleðinni lauk síðan með því að sporðrenna pizzu í KA-heimilinu.

Fyrirkomulag mótsins var öðruvísi en áður að því leyti að nú var spilaður fimm manna bolti á minni völlum og var því spilað á átta völlum samtals í Boganum - sem eftir því sem næst verður komist hefur ekki verið gert áður í Boganum. Í stuttu máli sagt tókst þetta fyrirkomulag afar vel og náðist fram það sem að var stefnt, að allir væru virkir inni á vellinum.

KA þakkar þátttakendum, þjálfurum, liðsstjórum og foreldrum kærlega fyrir ánægjulegan dag. Sömuleiðis er öllum sjálfboðaliðum sem stóðu að framkvæmd mótsins færðar þakkir svo og okkar helsta stuðningsfyrirtæki við framkvæmd Greifamótanna, veitingahúsinu Greifanum á Akureyri.