Nokkar hugleiðingar um Ölla ætlaðar fjölskyldu hans og öðrum innan KA stórfjölskyldunnar.
Ég kynntist ekki Ölla fyrr en hann var kominn á miðjan aldur en svo merkilegt sem það er spurði ég hann aldrei hvort hann hefði verið góður í fótbolta þegar hann var yngri sem er svolítið skrýtið þar eð við ræddum nánast ekkert annað en fótbolta þegar við hittumst. Gef ég mér að hann verið góður liðsmaður og mest í vörn. Sama mun hafa verið um okkur alla sem störfuðum mest með honum á seinni áratugum síðustu aldar þeirra Gunnars Kára, Siguróla Sigurðssonar, Gests Jónssonar, Eiðs Eiðssonar allt menn sem eru enn á lífi. Einnig voru öðlingarnir Guðmundur Björnsson og Sveinn Brynjólfsson með okkur. Vorum við kannski ekki afreksmenn sjálfir í fótbolta en Ölli hafi blandast hópnum vel. Einnig fer það einhvern veginn ekki saman að hafa verið góður í hinni göfugu íþrótt og vera síðan góður stjórnarmaður en einungis örfáar undanekningar eru frá þessu en bendi þá helst á Ellert Schram og núna seinni árin Þorvald son Ölla en hann var ekki bara þjálfari hjá Fram heldur rak hann að miklu leiti meistarflokk Knattspyrnudeildarinnar og fórst það vel úr hendi
Núna þegar ég lít til baka og fer að spá í þessi ár sem við unnum saman fyrir Knattspyrnudeild KA finnst mér eins og við höfum ómeðvitað skipt okkur í tvennt, annar hlutinn sá um vörnina og hinn um sóknina. Gerðum við okkur grein fyrir að til að ná árangri þarf hvorttveggja að vera í lagi. Ölli var meira varnarsinnaður og var mikið að hugsa um að halda leikmönnum og gefa góð ráð, sem honum fórst vel úr hendi. Hann var baráttumaður og kom það sér vel nú seinustu árin þegar erfið veikindi herjuðu á hann. Það er einnig ástæða til til að minnast Ölla vegna þess að hann og Bryndís kona hans eignuðust afburða knattspyrnumenn. Þori ég að segja að þeir séu bestu fótboltabræður innan KA og gleymi ég þá ekki þeim Hauki Dúdda og Lilla Kobba, Skúla og Eyfa Ágústssonum né Erlingi og Jóni Kristjánssonum.
Erlingur og Jón spiluðu með Þorvaldi og Ormari þegar KA varð Íslandsmeistari 1989. Held ég að megi segja að þeir fjórir hafi verið lykilmenn af mörgum góðum í liðinu. Þessi titill gladdi Ölla mikið, eins og aðra KA menn. Einnig veit ég að það gladdi karlinn mikið þegar Almarr sonur Ormars fór að blómstra sem fótboltamaður.
Ölli átti við mikil veikindi að stríða síðustu árin og vildi bara spila heimaleiki. Var Bryndís þá meira kletturinn í vörninni og sá til þess að honum liði sem best heima. Var aðdáunarvert að sjá hve mikið hún gaf af sér til að Ölli gæti verið sem lengst heima. Fylgdist ég með honum og þeim alla tíð og leit til hans daglega eftir að hann var kominn inná Sjúkrahúsið á Akureyri en ég var þar þá sem sjúklingur. Ég sá hvernig dró af honum frá degi til dags - uppbótartímann var hann á Dvalarheimilinu Hlíð nokkra daga en hann lést þar hinn 19. nóvember.
Mér er það ljúft og skylt að minnast góðs drengs um leið og við Hugrún mín sendum innilegar samúðarkveðjur til Bryndísar, Ormars, Þorvaldar, Hörpu Maríu og fjölskyldna þeirra.
Stebbi Gull