KA og Þór leiða saman hesta sína í 1. deild karla á morgun og er mikill spenningur í bænum fyrir leiknum stóra.
Nágrannaslagur af bestu gerð en bæði lið eru í efri hluta 1. deildarinnar og er því mikið í húfi. Leikurinn hefst 17:00 og hvetjum við fólk til þess að mæta tímanlega á völlinn og hafa aðgangseyri í reiðufé, svo ekki skapist langar biðraðir við miðasöluna.
Aðgangseyrir er óbreyttur, eða 1500kr fyrir 16 ára og eldri.
Síðast þegar KA og Þór mættust á Akureyrarvelli (21. júní 2012) fór fram ótrúlegur fótboltaleikur. Mikill hasar sem endaði með rauðu spjaldi og fimm mörkum í 3-2 sigri KA!
Andri Fannar Stefánsson skoraði líklega fallegasta mark sem skorað hefur verið í viðureign KA og Þórs þegar hann skaut viðstöðulaust í stöngina og inn þann 15. maí 2009 í 2-0 sigri KA.
KA og Þór mættust á Akureyrarvelli fyrir 23 árum í miklum baráttuleik í Mjólkurbikarnum. Á endanum fór KA með góðan 2-0 sigur af hólmi en takið vel eftir því hver skorar fyrra mark KA í leiknum!