Ómetanlegur styrkur Samherja til íþróttastarfs í KA

Fulltrúar styrkþega ásamt eigendum Samherja og forsetahjónunum,Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Mou…
Fulltrúar styrkþega ásamt eigendum Samherja og forsetahjónunum,Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff

Útgerðarfyrirtækið Samherji styrkti í dag íþrótta- og æskulýðsstarf á Akureyri og í Dalvíkurbyggð svo og nokkur önnur samfélagsverkefni um samtals 75 milljónir króna. Í hópi þeirra fjölmörgu íþróttafélaga sem fengu úthlutað fjárstyrk frá Samherja er KA. Úthlutun styrkjanna fór fram í veglegu hófi sem Samherji efndi til í KA-heimilinu í dag. Heiðursgestir við úthlutun styrkjanna voru forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff.

Styrkur Samherja til KA er annars vegar til unglingastarfs í júdó-, blak-, handknattleiks- og knattspyrnudeild félagsins og hins vegar til meistaraflokka KA í knattspyrnu og blaki og kvennaliðs KA/Þórs í handknattleik. Styrknum til unglingastarfsins skal verja til niðurgreiðslu æfingagjalda iðkenda og/eða til þess að greiða niður ferðakostnað iðkenda.

Aðrir styrkir Samherja en til íþrótta- og æskulýðsfélaga á Akureyri og í Dalvíkurbyggð runnu til endurhæfingardeildarinnar á Kristnesi, HL-stöðvarinnar á Akureyri og Framfarafélagsins Stíganda, sem hefur ötullega unnið að stígagerð í Kjarnaskógi og gefið út kort þar sem stígakerfið í skóginum er merkt inn. Þá var tilkynnt í dag um fjárhagslegan stuðning  Samherja við félag um rannsóknir á hverastrýtunum í Eyjafirði, sem á heimsvísu eru algjörlega einstakar.

Þetta er fjórða árið sem Samherji styrkir íþrótta- og æskulýðsstarf á starfssvæði sínu og eru þessir styrkir þeir langhæstu sem íslenskt fyrirtæki veitir til íþrótta- og æskulýðsstarfs og annarra verkefna.

Það er einfaldlega ekki unnt að finna þau orð sem lýsa þakklæti okkar í Knattspyrnufélagi Akureyrar fyrir slíkan höfðingsskap.  Þessi fjárstuðningur Samherja er gríðarlega mikilvægur þeim fjölskyldum sem eiga börn og unglinga í íþróttum og í mörgum tilfellum skiptir hann fjárhagslega sköpum um að þessir íþróttakrakkar geti stundað sínar íþróttir.

Fyrir hönd allra þeirra fjölmörgu innan vébanda KA sem njóta þessa fjárstuðnings sendir félagið eigendum Samherja - Helgu Steinunni Guðmundsdóttur, Kristjáni Vilhelmssyni, Kolbrúnu Ingólfsdóttur og Þorsteini Má Baldvinssyni - innilegar kveðjur og þakkar af heilum hug fyrir þennan mikla hlýhug og stuðning við íþróttastarf í KA.  Einnig eru sendar kveðjur til allra starfsmanna Samherja á sjó og landi fyrir dugnað og elju, sem hefur skapað þá fjármuni sem unnt er að leggja til framangreindra verkefna. Innilegar þakkir Samherjafólk!