Örfréttir KA er nýr liður en þar eru helstu fréttir af öllum deildum KA og af félaginu í heild teknar saman í stuttan póst. Þessi póstur er sendur út á mánudögum. Ef þú villt komast á póstlistann hafðu þá samband við Siguróla (siguroli@ka.is)
Hér koma fréttir vikuna 29.3-4.4 2016
Almennt
- Herrakvöld KA er á laugardaginn. Villi Naglbítur er veislustjóri og Þorgrímur Þráins ræðumaður. Það verður gríðarlegt fjör og er miðasala í fullum gangi hjá mér. Í fyrra var uppselt, þannig ekki gleyma að tryggja ykkur miða í tæka tíð.
- Konukvöldið sem er 16. apríl verður ekki síðra þar sem að Rúnar Eff mun leika listir sínar á gítar, Haustfjörð snyrtivörur vera með kynningu ásamt Adam&Evu og veislustjórinn er sjálfur Snorri Björnsson nýstirni.
- Aðalfundur KA er miðvikudaginn 13. apríl kl. 18:00 en aðalfundir deilda eru í vikunni. Í kvöld er aðalfundur Spaðadeildar kl. 19:30 og aðalfundur Blakdeildar 20:30. Aðalfundur handknattleiksdeildar er síðan á morgun kl. 18:00
- Forvarnarfyrirlestur verður í KA-heimilinu á fimmtudag kl. 20:00 en hann er hluti af fyrirlestrarröð KA sem hefur gengið frábærlega það sem af er.
Spaðadeild
- Fyrsta Akureyrarmótið í tvíliðaleik í tennis fór fram um páskana í KA-heimilinu. 16 tóku þátt og stóðu þeir Sævar Pétursson og Sigurður Ingi Friðleifsson uppi sem sigurvegarar.
Blakdeild
- Tveir heimaleikir eru um helgina hjá karlaliðinu okkar í blaki. Þeir leika við Stjörnuna kl.20:00 á föstudag og 16:00 á laugardag
- Öldungamót í blaki verður um helgina á Akureyri og er leikið í KA-heimilinu á laugardaginn frá 8:30-15:00
- Sex KA-krakkar taka þátt í landsliðsverkefni Blaksambandsins um þessar mundir en þær Alda Ólína Arnarsdóttir og Hildur Davíðsdóttir spila með A-landsliði kvenna á Ítalíu. Einnig á Ítalíu leika U-16 og U-18 ára landsliðið en þar eru þær Sólrún Hulda Sigtryggsdóttir í U-16 og Arnrún Eik Guðmundsdóttir og Unnur Árnadóttir í U-18. Hristiyan Dimitrov er síðan í U-17 ára landsliði drengja sem keppir einnig á Ítalíu.
Knattspyrnudeild
- KA lék æfingarleik gegn Magna á Skírdag á KA-velli og fór sá leikur 2-1 fyrir KA.
- Á morgun, miðvikudag, leikur KA æfingarleik gegn KF í Boganum kl. 20:00
Handknattleiksdeild
- KA/Þór lék gegn UMFA í gær og tapaði með einu marki í Olís-deild kvenna. Þær léku einnig gegn Fram á Skírdag og töpuðu frekar stórt.
- Akureyri Handboltafélag lék gegn UMFA á miðvikudaginn og tapaði með tveimur mörkum í spennuleik
- Næsti leikur KA/Þór er á laugardaginn gegn ÍR og er leikurinn í Síðuskóla kl. 14:30
- Næsti leikur Akuureyri er gegn Fram á fimmtudaginn í Reykjavík
- Fullt af yngriflokkaleikjum verða í KA-heimilinu á sunnudaginn en dagskráin segir okkur að það verði leikið allt frá 12:30-16:30 í 3. og 4. fl kvenna
- Nokkur ungmenni hafa verið að taka þátt í landsliðsverkefnum fyrir Íslands hönd upp á síðkastið en Bernharð Anton Jónsson hefur verið að æfa með U-20 ára landsliðinu og þær Hulda Tryggvadóttir og Birta Fönn Sveinsdóttir hafa verið að æfa og leika með U-20 ára liði kvenna. Þá eru þeir Jónatan Marteinn Jónsson, Dagur Gautason og Ottó Björn Óðinsson í U-16 karla og þeir Arnór Ísak Haddsson, Bruno Berndat og Ragnar Sigurbjörnsson voru í dag valdir til æfinga með U-14 ára liði Íslands. Loks eru þeir Sigþór Gunnar Jónsson og Ásgeir Kristjánsson í U-18 ára landsliði Íslands.