Örfréttir KA vikuna 7.-13. mars

Karlaliðið í blaki er á góðu skriði!
Karlaliðið í blaki er á góðu skriði!

Undanfarna þrjá mánudaga hafa verið sendar úr örfréttir frá KA í tölvupósti. Hægt er að skrá sig á þennan tölvupóstlista með því að hafa samband við Siguróla (siguroli@ka.is). Hér má sjá fréttir vikunnar.

Almennt

-          Konukvöld KA er 19. mars næstkomandi og er miðasala hafin. Miðinn kostar litlar 4900kr og er hægt að kaupa slíka miða í gegnum mig, eða hafa samband við einhvern af leikmönnum meistaraflokks kvenna í handbolta. Veislustjóri verður Snapchat-Stjarnan Snorri Björnsson, en einnig verður ræðumaður, tónlistaratriði og góður matur á boðstólunum.

-          Herrakvöld KA verður 2. apríl. Nánar auglýst síðar.

-          Stórtónleikar verða í  KA-heimilinu á Föstudaginn Langa. Úlfur Úlfur mun leika listir sínar, ásamt plötusnúð. Nánar um miðasölu síðar.

 

Handbolti

-          Stór handboltavika er að baki þar sem uppskeran var rýr hjá meistaraflokkunum. KA/Þór tapaði fyrir Haukum á fimmtudaginn og tapaði einnig á sunnudaginn gegn Fjölni, í hörkuleik. Akureyri handboltafélag tapaði einnig fyrir Haukum á fimmtudaginn og gerði síðan jafntefli við Víking í gær.

-          Fimmti og sjötti flokkur KA og KA/Þór fóru suður um helgina og öttu að kappi á Íslandsmótum. Árangur var góður, þrátt fyrir enga verðlaunapeninga í þetta skiptið. Vert er að taka fram að 5. flokkur eldra ár hefur þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 5. flokki, þrátt fyrir að enn sé ein umferð eftir af Íslandsmótinu.

-          Um helgina eru 6 handboltaleikir í KA-heimilinu. Þriðji flokkur KA leikur gegn Stjörnunni á föstudagskvöld og FH á sunnudag. 4. flokkur kvenna leikur við Selfoss á föstudagskvöld og 4. flokkur karla leikur gegn Þrótt í hádeginu á sunnudag. Svo leikur 2. flokkur Akureyri Handboltafélags gegn Stjörnunni á laugardag kl. 16:30 og meistaraflokkur leikur gegn ÍBV kl. 16:00 á sunnudaginn, í KA-heimilinu

Blak

-          Karlalið KA vann tvo glæsilega 3-0 sigra á UMFA um helgina í KA-heimilinu. Kvennaliðið hinsvegar beið lægri hlut,3-0 gegn UMFA.

-          Einn blakleikur er í KA-heimilinu næstu helgi þegar að UMFG kemur í heimsókn og spilar gegn kvennaliði KA kl. 14:00 á laugardaginn.

-          Það styttist óðum í bikarhelgina, þegar KA fer bæði með karla og kvennalið sitt í úrslitahelgi bikarkeppni BLÍ í Laugardalshöll. Karlaliðið leikur gegn HK laugardaginn 19. mars kl. 16:00 en kvennaliðið gegn UMFA 12:00 sama dag, í Laugardalshöll. Vinni liðin sína leiki, leika þau til úrslita daginn eftir.

Fótbolti

-          KA lék gegn Víking Ólafsvík á laugardaginn í Lengjubikarnum. Liðið þurfti að sætta sig við 0-0 jafntefli en KA hafði töluverða yfirburði í leiknum, 22 skot gegn 3 frá Víkingum, en inn vildi boltinn ekki hjá okkar mönnum.

-          KA leikur tvo æfingaleiki í vikunni. Á miðvikudaginn kl. 20:00 spilar KA gegn KF í Boganum og á föstudaginn kl. 18:00 leikur KA gegn Völsung á KA-velli.

-          Enn eru til nokkrir happdrættismiðar í einu glæsilegasta happdrætti fyrr og síðar. Vilji fólk kaupa sér miða er best að snúa sér að einhverjum leikmanni meistaraflokks, en þeir sjá um að selja miðana.