Hér eru örfréttir KA vikuna 7.-14. nóvember. Örfréttir KA er stuttur fréttapakki sem KA setur saman á hverjum mánudegi til þess að leyfa fólki að fylgjast með hvað er í gangi í húsinu og hjá félaginu í heild. Til þess að gerast áskrifandi af örfréttunum er hægt að senda póst á siguroli@ka.is
Almennt:
- Nóg er um að vera, eins og svo oft áður, í KA-heimilinu um helgina. Stjörnur framtíðarinnar í handbolta koma og leika listir sínar á handboltamóti sem KA og Þór halda í sameiningu. Leikir hefjst snemma á laugardagsmorgni bæði í KA-heimilinu og Íþróttahöllinni. Mótið stendur til 16:30 á laugardag og hefst aftur snemma á sunnudagsmorgun og stendur til að verða 14. Það er um að gera að gera sér dagamun og kíkja á stemminguna í KA-heimilinu á þessu skemmtilega móti og horfa á framtíðar landsliðsfólkið okkar etja að kappi víðsvegar að af landinu.
Fótbolti:
- Undirbúningstímabilið endalausa er hafið hjá meistaraflokki karla en æfingar hófust eftir smá hlé í síðustu viku. KA-heimilið er því farið að glæðast enn meira lífi en margir KA-menn tala um hversu langt sé í sumarið og mikil tilhlökkun sé hjá stuðningsmönnum að fylgjast með liðinu í efstu deild.
- Þrír KA-strákar voru valdir til æfinga með U19 ára landsliði Íslands en þetta eru þeir Áki Sölvason, Daníel Hafsteinsson og Aron Dagur Birnuson. Æfingarnar fara fram dagana 11.-13. nóvember en til gamans má geta að þjálfarar U19 eru KA-mennirnir Þorvaldur Örlygsson og Dean Martin.
Handbolti:
- Kvennalið KA/Þór hélt sigurgöngu sinni áfram um helgina og unnu HK á heimavelli, 28-22. Martha Hermannsdóttir gerðir 9 mörk og þær Ásdís Guðmundsdóttir og Steinunn Guðjónssdóttir fjögur mörk hvor. Stelpurnar eru með 9 stig í 4.-5. sæti deildarinnar en aðeins þrjú stig skilja þær og toppliðið að. Stelpurnar fara svo suður og spila tvo leiki um helgina gegn Val U og Fjölni
- Þá spilaði þriðji flokkur kvenna einnig við HK og vann með einu marki, 25-24. Fjórði flokkur kvenna spilaði tvo leiki við HK og vann liðið annan þeirra. Þá voru 4. flokks karla leikjunum sem áttu að fara fram á sunnudaginn frestað.
- Dagur Gautason stóð sig vel með U17 ára landsliði Íslands sem spilaði þrjá leiki á æfingamóti í Frakklandi. Dagur spilaði slatta og skoraði m.a. 3 mörk gegn Ungverjum og Sviss. Íslenska liðið vann einn leik á mótinu og tapaði tveimur. Þetta voru fyrstu leikir U17 ára liðsins á erlendri grundu.
- Akureyri Handboltafélag tekur á móti Stjörnunni á fimmtudaginn í KA-heimilinu kl. 19:00. Við hvetjum alla til þess að mæta og styðja við strákana í erfiðri baráttu!
Blak:
- Karlalið KA hélt suður yfir heiðar um helgina og lék tvo leiki við Stjörnuna í Mizuno-deild karla. Leikirnir töpuðust báðir 3-1 og eru strákarnir okkar í næst neðsta sæti deildarinnar með tvö stig.
- Kvennaliðið var einnig með í för og léku þær tvo leiki gegn Þrótt R í Laugardalshöllinni. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu báða leikina, 3-2 og 3-1. Frábært hjá þeim! Þær eru með 8 stig í 4. sæti sinnar deildar en alls eru 7 lið í kvennadeildinni og hafa þau ekki verið eins mörg í nokkurn tíma.