Á laugardaginn var öttu KA-menn að kappi við lið Fjarðarbyggðar á þeirra heimavelli á Reyðarfirði. Leiknum lauk með 1-0 sigri KA manna en það var Elfar Árni Aðalsteinsson sem skoraði mark KA eftir hornspyrnu í uppbótartíma.
Það var frábær stemning meðal KA-manna sem fjölmenntu á Reyðarfjörð á laugardaginn. Heimamenn byrjuðu þó leikinn betur og voru mun grimmari en KA-menn. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik þar sem að Fjarðarbyggð var aðeins sterkara liðið kom KA-liðið mun grimmara til leiks í síðari hálfleik. Seinni hálfleikurinn var eign KA-manna og fengu þeir þónokkur færi til þess að skora. Það var þó ekki fyrr en í uppbótartíma sem að Elfar Árni Aðalsteinsson stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu og tryggði stigin þrjú. Bæði áhorfendur og leikmenn ærðust af fögnuði enda mikilvæg stig í hús. Eftir þennan sigur er KA í 3.-4. sæti deildarinnar með fjögur stig en næsti deildarleikur er gegn Haukum á sígrænum KA-vellinum á laugardaginn kl. 16:00.
Í gær mættust svo KA og Dalvík/Reynir í 64-liða úrslitum Borgunarbikarsins. KA gerði fimm breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn. Ævar Ingi, Hrannar Björn, Atli Sveinn, Fannar og Halldór Hermann fengu sér allir sæti á varamannabekknum frá því í síðasta leik og inn komu þeir Ben Everson, Ýmir Már Geirsson, Ólafur Aron Pétursson, Hilmar Trausti Arnarsson og Srdjan Rajkovic sem allir áttu mjög góðan leik.
Eftir um 15 tíðindalitlar mínútur slapp Ýmir Már einn í gegnum vörn Dalvíkinga og var þar rifinn niður og aukaspyrna dæmd og fékk varnarmaður Dalvík/Reynis réttilega rautt spjald. Juraj Grizelj gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnunni. Næstu tvö mörk KA skoraði síðan Ben Everson með glæsibrag eftir góða spilamennsku. Staðan var því 3-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik hélt einstefna KA-manna áfram og skoruðu heimamenn 3 mörk gegn engu. Mörkin skoruðu Juraj Grizelj, Ýmir Már og Ólafur Aron. KA hefði getað skorað fleiri mörk en markvörður Dalvíkinga, sem og tréverkið kom gestunum nokkrum sinnum til bjargar. Lokatölur 6-0 og KA komnir í næstu umferð bikarsins en dregið verður á morgun, fimmtudag.