Sigurbjörg Níelsdóttir, sem flestir þekktu undir gælunafninu Bögga, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi sunnudagsins 25. september, á 54. aldursári.
Bögga var alla tíð mikil og stolt KA-kona og bar hag félagsins ávallt fyrir brjósti. Hún fylgdist vel með framgangi félagsins og var óspör á jákvæða hvatningu til KA-manna í blíðu eða stríðu. Þó svo að heilsubrestur hafi komið í veg fyrir að Bögga kæmist á Akureyrarvöll á liðnu sumri til þess að hvetja KA-strákana áfram, lá hún ekki á liði sínu með hvatningu og stuðningi í gegnum samskiptavefinn Facebook. Hún hafði alltaf trú á sínum mönnum, á hverju sem gekk, og sendi jákvæða strauma í gegnum fasbókina.
Auk þess að styðja KA með ýmsum hætti var Bögga í hringiðu dagsins í KA-heimilinu þegar hún var þar starfsmaður á árunum 1990 til 2003. Skemmtilegra starf hafði Bögga ekki tekið sér fyrir hendur um dagana. Starfinu í KA-heimilinu varð Bögga að segja lausu sökum heilsubrests.
Fyrir nokkrum mánuðum greindist Bögga með illkynja krabbamein. Fljótlega varð ljóst að glíman við þennan sjúkdóm yrði ójöfn, en Bögga tókst á við verkefnið af æðruleysi og yfirvegun og gerði eftir sem áður að gamni sínu. Fram á síðasta dag var húmorinn á sínum stað.
Að leiðarlokum þakkar Knattspyrnufélag Akureyrar Böggu fyrir allt sem hún gerði fyrir félagið. Hún var liðsmaður sem unni KA af heilum hug og hjarta. Birnu Gunnarsdóttur, aldraðri móður Böggu, Gunnari bróður hennar, Röggu mágkonu hennar og þremur börnum þeirra, Birnu Ósk, Tinnu Björg og Ólafi Níelsi, svo og öðrum aðstandendum, sendir KA innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Sigurbjargar (Böggu) Níelsdóttur.
Útför Böggu verður gerð frá Akureyrarkirkju föstudaginn 7. október kl. 13.30.