Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir úr blakdeild KA og Þórir Hrafn Ellertsson úr knattspyrnudeild KA hlutu Böggubikarinn á 98 ára afmælisfögnuði KA í dag.
Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir er gríðarlega efnileg og metnaðarfull í blakinu og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið lykilleikmaður bæði fyrir U20 og meistaraflokkslið KA undanfarið ár og vann alla stóru titlana sem í boði voru með meistaraflokki en hún vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í bikarúrslitahelginni þar sem KA landaði bikarmeistaratitlinum eftir æsispennandi fimm hrinu leik.
Sóldís er frábær liðsfélagi með jákvætt hugarfar og hvetur aðra í kringum sig. Hún missir varla úr æfingu, hvort sem það er styrktaræfing eða hefðbundin æfing. Sóldís var valin í nokkur landsliðsverkefni á árinu, bæði bæði í blaki og strandblaki. U19 ára landslið Íslands á NEVZA endaði í 3. sæti og var Sóldís stigahæsti leikmaður þess og þá var hún einnig valin í A landslið Íslands. Í strandblaki var hún valin í U19 og einnig í U17 landsliðið sem tóku þátt í sterkum mótum í sumar og vann Sóldís til gullverðlauna í U19 flokknum.

Þórir Hrafn Ellertsson átti frábært ár, bæði innan sem utan vallar. Á vellinum leiddi hann 2. flokk sem fyrirliði er liðið sló út FS Jelgava frá Lettlandi í Evrópukeppni landsmeistara. Í kjölfarið áttu strákarnir hörkuleiki gegn gríðarsterku liði PAOK frá Grikklandi og stóðu sig afar vel. Á Íslandsmótinu safnaði liðið flestum stigum allra liða yfir sumarið en fyrirkomulagið er að lokalotan ræður úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Í síðustu lotunni endaði lið Þóris í öðru sæti eftir góða frammistöðu.
Utan vallar hefur Þórir einnig verið félaginu ómetanlegur. Hann er ætíð boðinn og búinn til að aðstoða, hvort sem um er að ræða dómgæslu, hjálp á N1-mótinu eða önnur verkefni innan félagsins. Hann er jákvæður, hvetjandi og fyrirmyndar fyrirliði sem nýtur mikillar virðingar meðal samherja sinna. Þórir Hrafn er því afar vel að þessari tilnefningu kominn.