Stórleikur ársins í Olís-deildinni hjá KA/Þór

Þriðjudaginn 18. febrúar tekur meistaraflokkur KA/Þór á móti toppliði Stjörnunnar en það er leikur sem enginn má missa af.

Stjarnan trónir í efsta sæti deildarinnar með sex stiga forystu á næstu lið. Stjarnan er taplaus í Olís-deildinni það sem af er en hefur gert tvö jafntefli, gegn Val og síðan gegn HK fyrir tíu dögum síðan.

Í liði Stjörnunnar er valinn maður í hverju rúmi og nægir að nefna markvörðinn, Florentinu Grecu, útileikmennina Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur, Solveigu Láru Kjærnested, Jónu Margréti Ragnarsdóttur og Helenu Rut Örvarsdóttur svo einhverjar séu tilnefndar.

KA/Þór liðið hefur verið á fínu skriði undanfarið og gert liðum erfitt fyrir sem koma hingað norður. Skemmst er að minnast að Grótta mátti þakka fyrir að ná jafntefli hér á dögunum en Grótta situr nú í 2.-4. sæti deildarinnar.

Leikurinn hefst á þriðjudaginn klukkan 17:30 og ástæða til að hvetja alla áhugamenn til að fjölmenna og sjá kvennaboltann eins og hann gerist bestur á Íslandi í dag.