Tap í fyrsta leik gegn ÍA

Mynd - Ingunn Hallgrímsdóttir - Fotbolti.net
Mynd - Ingunn Hallgrímsdóttir - Fotbolti.net

KA tapaði í dag 3-1 gegn ÍA í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar á Norðurálsvellinum á Akranesi. Staðan í hálfleik var 2-1 heimamönnum í vil. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði mark KA í leiknum.

ÍA 3 – 1 KA

1 – 0 Tryggvi Hrafn Haraldsson (’33)

2 – 0 Viktor Jónsson (’40)

2 – 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’45+2) Stoðsending: Steinþór Freyr

3 – 1 Tryggvi Hrafn Haraldsson (’58)

Lið KA:

Aron Dagur, Brynjar Ingi, Hallgrímur J, Callum, Ýmir Már, Andri Fannar, Almarr, Daníel, Steinþór Freyr, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Haukur Heiðar, Hrannar Björn, Torfi Tímoteus, Sæþór Olgeirs, Alexander Groven og Nökkvi Þeyr.

Skiptingar:

Torfi Tímoteus inn – Hallgrímur J út (’32)

Alexander Groven inn – Ýmir Már út (’67)

Nökkvi Þeyr inn – Steinþór Freyr út (’81)

KA og ÍA mættust í dag í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar á Norðurálsvellinum á Akranesi. Leikurinn hófst á rólegu nótunum og var lítið að frétta fyrstu þrjátíu mínútur leiksins. Stutt síðan liðin mættust síðast og greinilegt að liðin voru búinn að kortleggja hvort annað vel. En það átti svo sannarlega eftir að breytast og sannkölluð markasúpa á leiðinni.

Eftir rúmlega hálftíma leik fór fyrirliði KA, Hallgrímur Jónasson af velli vegna meiðsla og aðeins nokkrum andartökum seinna átti Brynjar Ingi slaka sendingu aftur sem dreif ekki á Aron Dag og Tryggvi Hrafn framherji ÍA komst inn í og skoraði hann auðveldlega í autt markið og heimamenn í ÍA komnir 1-0 yfir. Miskilningur í vörn KA sem leiddi til þess að Skagamenn skoruðu auðvelt mark.

Skagamenn bættu svo í forystuna sjö mínútum seinna þegar að Hörður Ingi átti góðan sprett upp að endamörkum framhjá varnarmönnum KA og gaf fyrir á Viktor Jónsson sem lúrði á fjærstönginni og skallaði hann boltann í netið af stuttu færi og Skagamenn skyndilega komnir í 2-0.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks var KA nálægt því að minnka muninn þegar að Torfi Tímoteus átti skalla sem var bjargað á marklínu af varnarmönnum ÍA. Örstuttu seinna átti Steinþór Freyr magnaða fyrirgjöf fyrir markið á Hallgrím Mar sem skoraði af stuttu færi og kom KA aftur inn í leikinn og í sömu andrá var flautað til hálfleiks. Staðan 2-1 fyrir heimamönnum þegar að liðini gengu til búningsherbergja.

KA liðið mætti vel stemmt inn í síðari hálfleikinn og átti liðið fleiri góða spilkafla sín á milli og hélt boltanum betur en í þeim fyrri. Þegar hálfleikurinn var sjö mínútna gamall áttu Elfar Árni og Hallgrímur Mar laglegan samleik sem lauk með því að Hallgrímur átti rosalegt skot rétt framhjá markinu og mátti litlu muna að hann endaði í samskeytunum.

Á 58. mínútu braut Callum á Gonzalo Zamorano rétt fyrir utan teig og dæmdi Vilhjálmur Alvar aukaspyrnu. Hana tók Tryggvi Hrafn og skoraði hann með því að skrúfa boltann framhjá varnarvegg KA og Aroni Degi í markinu og Skagamenn aftur komnir með tveggja marka forystu. 3-1 fyrir heimamönnum og rúmur hálftími eftir af leiknum. 

KA sótti meira í restina en skapaði liðið sér lítil sem enginn hættuleg marktækifæri síðasta hálftíman á meðan Skagamenn færðu sig aftar á völlinn og héldu í fenginn hlut.

KA spilaði færri síðustu mínútur leiksins þar sem Alexander Groven fór meiddur af velli þegar að þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og KA búið að gera allar sínar skiptingar. Annar leikmaður KA sem fór meiddur af velli í leiknum, sem er áhyggjuefni.

Á 90. mínútu átti Daníel Hafsteins hörku aukaspyrnu sem Árni Snær í marki ÍA varði vel í horn. Lengra komst KA liðið hins vegar ekki og lokatölur því 3-1 fyrir heimamönnum í ÍA. Spilamennska KA liðsins í dag var ekki nægilega góð og útkoman eftir því og sigur Skagamanna sanngjarn heilt yfir.

Það er hins vegar þétt leikið þessa dagana og fær KA tækifæri til að kvitta fyrir þessa framistöðu í tveimur leikjum í næstu viku er við mætum Sindra í bikarnum á Hornafirði og Val í deildinni í fyrsta heimaleik. Fjöldinn allur af stuðningsmönnum KA gerði sér ferð upp á Skipaskaga í dag og er það vel og til mikillar fyrirmyndar. 

KA-maður leiksins: Almarr Ormarsson (Barðist vel á miðjunni í dag og einn af fáum leikmönnum liðsins sem sýndi sitt rétta andlit.)

Næsti leikur KA er á miðvikudaginn í bikarnum þegar að KA heimsækir Sindra á Hornafjörð í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins kl. 16:00.

Fyrsti heimaleikur sumarsins verður hins vegar á sunnudaginn eftir viku þegar að við fáum Íslandsmeistara Vals í heimsókn á Greifavöll. Hefst leikurinn kl. 16.00 og hvetjum við alla KA menn að fjölmenna á völlinn og styðja KA liðið til sigurs. Áfram KA!