Þrír leikmenn þriðja flokks á reynslu hjá Blackburn Rovers

Þremur leikmenn úr þriðja flokki KA, Andra Fannari Stefánssyni, Jóhanni Axeli Ingólfssyni og Hauki Heiðari Haukssyni munu fara til enska úrvalsdeildarliðsins Blackburn Rovers á reynslu nú í lok apríl. Frétt tekin af Fótbolta.net

Andri Fannar er miðjumaður sem hefur átt sæti í byrjunarliði meistaraflokks KA í Lengjubikarnum í ár og hefur í allan vetur æft með U17 ára landsliði Íslands en hann er aðeins 15 ára gamall og verður 16 ára síðar á árinu.

Jóhann Axel er eins og Andri Fannar fæddur árið 1991 en er þó orðinn 16 ára og er varnarmaður eins og Haukur Heiðar einnig. Þeir tveir hafa einnig leikið með meistaraflokki KA en í Powerade mótinu.

Drengirnir þrír fara utan í lok apríl og æfa með Blackburn í nokkra daga. Njósnarar félagsins sáu til þeirra er þeir léku með KA gegn Blackburn í æfingaleik þriðja flokks um páskana og nokkrum dögum síðar er þeir léku með KA á Blackpool mótinu en KA vann það mót.

Njósnarar stórliðs Liverpool sáu einnig til drengjanna í leiknum gegn Blackburn og í kjölfarið var þeim Andra og Jóhanni boðið að leika æfingaleik í Akademíu Liverpool á Skírdag sem var fyrir Blackpool mótið. Leikurinn hafði verið settur sérstaklega upp til að skoða unga leikmenn allstaðar að úr heiminum og Andra og Jóhanni var boðið að slást í þann hóp sem þar var skoðaður.

Andri Fannar lék í rauðum Liverpool búning í leiknum en Jóhann var mótherji hans og lék í gulum varabúningi Liverpool. Drengirnir stóðu sig vel í leiknum og í hálfleik kom Xabi Alonso og ræddi við bæði lið. Í kjölfarið af þessum leik fylgdust Liverpool með þeim á Blackpool mótinu.

Frétt tekin af Fótbolta.net.

Mynd 1: Andri Fannar í leik gegn FH í Lengjubikarnum í febrúar.
Mynd 2: Haukur Heiðar í leik í æfingaferðinni á Englandi.
Mynd 3: Jóhann Axel í úrslitaleiknum á Blackpool Cup.