Tilnefningar til Böggubikars drengja 2025

Böggubikarinn verður afhendur í tólfta skiptið í ár en hann er veittur bæði dreng og stúlku sem þykja efnileg í sinni grein en eru ekki síður sterk félagslega. Böggubikarinn verður afhentur á 98 ára afmælishátíð KA sunnudaginn 11. janúar klukkan 16:30.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Að þessu sinni eru fjórir efnilegir drengir tilnefndir af deildum KA til Böggubikarsins fyrir árið 2025.

Antoni Jan Zurawski hefur verið í mikilli framför undanfarin ár en hann leggur mikið á sig á æfingum og missir aldrei af æfingu. Hann hefur unnið sér inn fast sæti í byrjunarliði meistaraflokks KA með mikilli elju og vinnusemi. Karlalið KA vann alla þá titla sem hægt var að vinna á árinu og átti Antoni svo sannarlega sinn hlut í þeirri miklu velgengni. Antoni er frábær liðsfélagi sem dregur liðsfélaga sína áfram og tengir yngri leikmenn við þá eldri í karlaliðinu og var á lokahófi blakdeildar valinn besti liðsfélaginn af leikmönnum liðsins.

Patrekur Páll Pétursson er einn fárra karlkyns iðkanda á efri þrepum áhaldafimleika. Hann var í ár valinn í drengjalandslið sem keppti fyrir Íslands hönd og náði þar frábærum árangri, en hann komst í úrslit á þremur áhöldum af sex. Patrekur æfir alltaf af miklu kappi og mætir á æfingar 5-6 sinnum í viku. Patrekur tekur einnig þátt í þjálfun yngri iðkanda og er þar mikil fyrirmynd enda bæði kurteis og jákvæður drengur.

Úlfar Örn Guðbjargarson er 18 ára gamall markvörður sem hefur verið að brjóta sér leið inn í meistaraflokkslið KA á undanförnum árum. Hann er gríðarlega metnaðarfullur og stefnir langt en hann hefur verið viðloðandi yngrilandslið Íslands án þess þó að vera valinn í lokahópa. Úlfar er einnig gríðarlega góður félagi og liðsmaður. Hann er til fyrirmyndar í einu og öllu utan vallar og á framtíðina fyrir sér í handboltanum.

Þórir Hrafn Ellertsson átti frábært ár, bæði innan sem utan vallar. Á vellinum leiddi hann 2. flokk sem fyrirliði er liðið sló út FS Jelgava frá Lettlandi í Evrópukeppni landsmeistara. Í kjölfarið áttu strákarnir hörkuleiki gegn gríðarsterku liði PAOK frá Grikklandi og stóðu sig afar vel. Á Íslandsmótinu safnaði liðið flestum stigum allra liða yfir sumarið en fyrirkomulagið er að lokalotan ræður úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Í síðustu lotunni endaði lið Þóris í öðru sæti eftir góða frammistöðu.

Utan vallar hefur Þórir einnig verið félaginu ómetanlegur. Hann er ætíð boðinn og búinn til að aðstoða, hvort sem um er að ræða dómgæslu, hjálp á N1-mótinu eða önnur verkefni innan félagsins. Hann er jákvæður, hvetjandi og fyrirmyndar fyrirliði sem nýtur mikillar virðingar meðal samherja sinna. Þórir Hrafn er því afar vel að þessari tilnefningu kominn.