Tilnefningar til Böggubikars stúlkna 2025

Böggubikarinn verður afhendur í tólfta skiptið í ár en hann er veittur bæði dreng og stúlku sem þykja efnileg í sinni grein en eru ekki síður sterk félagslega. Böggubikarinn verður afhentur á 98 ára afmælishátíð KA sunnudaginn 11. janúar klukkan 16:30.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Að þessu sinni eru þrjár fyrirmyndar stúlkur tilnefndar af deildum KA til Böggubikarsins fyrir árið 2025.

.

Bergrós Ásta Guðmundsdóttir er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi og þrátt fyrir ungan aldur orðin lykilmaður í liði KA/Þór. Bergrós var kosin besti sóknarmaður Grill66 deildarinnar síðastliðið keppnistímabil auk þess að vera valin sú efnilegasta er hún fór fyrir liði KA/Þórs sem vann sigur í deildinni og það án þess að tapa leik. Hún hefur farið vel af stað í Olísdeildinni í vetur og tekið miklum framförum. Bergrós hefur átt fast sæti í U-19 ára landsliði kvenna en stelpurnar spiluðu vel í sumar á EM í Svartfjallalandi og tryggðu sig inn á HM sem verður næsta sumar. Bergrós er einstaklega metnaðarfull og leggur gríðarlega mikið á sig og er með skýr markmið.

.

Bríet Jóhannsdóttir hefur með vinnu sinni, einbeitingu og metnað náð að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá liði Þórs/KA í Bestudeildinni og þá spilaði hún þrjá landsleiki með undir 19 ára landsliði Íslands á árinu. Hún er eldsnögg, sterk og hæfileikarík sem hefur hjálpað henni mikið í að komast þangað sem hún stefnir. Bríet hefur gott hugarfar, er góður persónuleiki og mikilvægur stuðningur fyrir liðsfélagana bæði innan vallar sem utan og klárt að hún á framtíðina fyrir sér.

.

Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir er gríðarlega efnileg og metnaðarfull í blakinu og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið lykilleikmaður bæði fyrir U20 og meistaraflokkslið KA undanfarið ár og vann alla stóru titlana sem í boði voru með meistaraflokki en hún vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í bikarúrslitahelginni þar sem KA landaði bikarmeistaratitlinum eftir æsispennandi fimm hrinu leik.

Sóldís er frábær liðsfélagi með jákvætt hugarfar og hvetur aðra í kringum sig. Hún missir varla úr æfingu, hvort sem það er styrktaræfing eða hefðbundin æfing. Sóldís var valin í nokkur landsliðsverkefni á árinu, bæði bæði í blaki og strandblaki. U19 ára landslið Íslands á NEVZA endaði í 3. sæti og var Sóldís stigahæsti leikmaður þess og þá var hún einnig valin í A landslið Íslands. Í strandblaki var hún valin í U19 og einnig í U17 landsliðið sem tóku þátt í sterkum mótum í sumar og vann Sóldís til gullverðlauna í U19 flokknum.