Knattspyrnufélag Akureyrar heldur upp á 98 ára afmæli sitt sunnudaginn 11. janúar 2025 við hátíðlega athöfn í KA-Heimilinu klukkan 16:30. Við það tilefni verður meðal annars íþróttakona KA árið 2025 kjörinn en í þetta skiptið eru fjórir aðilar tilnefndir frá deildum félagsins.
Þetta er í sjötta skiptið sem verðlaunin eru afhent hvoru kyni og hefur ríkt mikil ánægja með þá breytingu. Efstu þrjár í kjörinu hljóta formannabikar en það eru eignabikarar sem gefnir eru af fyrrverandi formönnum KA. Hermann Sigtryggsson, fyrrverandi formaður KA, hrinti þessari skemmtilegu hefð af stað fyrir hart nær þrjátíu árum síðan og hefur þessi siður haldist síðan. Í ár eru það eftirfarandi fyrrum formenn KA sem koma að formannabikurunum: Hermann Sigtryggsson, Gunnlaugur Björnsson, Guðmundur Heiðreksson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Hrefna Gunnhildur Torfadóttir og Ingvar Már Gíslason.

Anna Þyrí Halldórsdóttir er lykilmaður í handboltaliði KA/Þórs sem vann Grilldeild kvenna á síðasta tímabili. Hún var kosin varnarmaður ársins í deildinni á lokahófi HSÍ að mati leikmanna og forráðamanna félaganna. Anna Þyrí er öflugur línumaður, gríðarlega ósérhlífin og mikill leiðtogi innan liðs KA/Þór.
Anna hefur spilað gríðarlega vel í Olísdeild kvenna í vetur en nýliðar KA/Þórs hafa komið mörgum á óvart með framgöngu sinni. Hún er mjög öflug á báðum helmingum vallarins, skorar mikið af línunni og spilar svo gríðarlega mikilvægt varnarhlutverk.

Drífa Ríkarðsdóttir átti einstaklega gott ár og endar hún árið sem næststigahæsta kona ársins í klassískum kraftlyftingum. Hún hefur staðið sig afar vel á alþjóðavettvangi og verið frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar. Í febrúar tók Drífa þátt á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem haldið var á Spáni. Þar stóð hún sig með prýði og hafnaði í 11. sæti í -57 kg flokki með 392,5 kg í samanlögðum árangri.
Drífa keppti einnig á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi þar sem hún átti gott mót í afar sterkum flokki. Hún endaði í 22. sæti og náði sama samanlagða árangri, 392,5 kg.Drífa er glæsileg fyrirmynd í öllu sem tengist kraftlyftingum, hvort sem hún stígur sjálf á keppnispallinn eða styður og aðstoðar aðra iðkendur. Eftir svona sterkt ár verður spennandi að fylgjast með henni á nýju ári og sjá hvernig hún byggir ofan á þann frábæra árangur sem hún hefur náð hingað til.

Julia Bonet Carreras átti frábært tímabil með meistaraflokki kvenna í blaki og er afar mikilvægur leikmaður fyrir KA liðið sem stóð uppi sem handhafi allra stóru titlanna og er liðið því Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Julia sem spilar stöðu kantsmassara var stigahæsti leikmaðurinn í efstudeild á síðasta tímabili ásamt því að vera besti uppgjafarinn. Hún var í liði ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu ásamt því að vera valinn besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve mögnuð hún er.
Julia er jákvæð, hvetjandi og góður liðsfélagi sem okkar ungu og efnilegu stúlkur líta upp til. Hún hefur líka náð góðum árangri sem þjálfari hjá okkur í yngri flokkum. Julia ásamt Zdravko sá um allar æfingar í strandblakinu í sumar. Í ár sendi Ísland karla og kvenna lið í U19 og U17 flokk á evrópumót og átti KA 7 fulltrúa af 16 krökkum á aldrinum 16-19 ára. Ljóst er að strandblakið er á mikilli siglingu undir forystu Juliu, Zdravko og KA.

Margrét Árnadóttir er tilnefnd fyrir hönd knattspyrnudeildar en Margrét er fjölhæfur og kraftmikill leikmaður sem spilar lykilhlutverk í liði Þórs/KA. Vinnusemi, dugnaður, ósérhlífni og metnaður eru áberandi í hennar fari og drífur hún liðsfélaga sína áfram bæði á æfingum og í leikjum.
Margrét er góð fyrirmynd innan sem utan vallar og reynsla hennar, þekking og geta er yngri iðkendum til eftirbreytni. Hún gerir leikmenn í kringum sig betri og gefur aldrei eftir í baráttunni. Margrét gefst aldrei upp og er leikmaður sem allir vilja hafa sér við hlið á vellinum.